Kóralar eru viðkvæmir fyrir sveiflum í sjávarhita. Við langvarandi hitaálag losa þeir sig við þörunga sem lifa í sambýli við þá og fölna. Án þörunganna drepast kórallarnir á endanum. Kóralrif eru mikilvæg vistkerfum í hafinu og áætlað er að um fjórðungur sjávarlífvera lifi í eða við þau.
Fölnunaratburðurinn sem er nú í gangi hófst árið 2023 þegar veðurfyrirbrigðið El niño magnaði upp þá hlýnun sem á sér stað vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Þetta er fjórði hnattræni fölnunaratburðurinn frá 1998. Fölnunaratburðir teljast hnattrænir þegar þeir ná til allra þriggja djúpsjávarflæma jarðar: Atlantshafs, Kyrrahafs og Indlandshafs á einu ári.
Nú segir alþjóðleg stofnun sem fylgist með með kóralrifjum heimsins að 84 prósent þeirra hafi orðið fyrir skaðlegri fölnun í atburðinum. Hann sé þannig sá svæsnasti sem sögur fara af, verri en sá sem geisaði frá 2014 til 2017 þegar tveir þriðju hlutar kóralrifja heims fölnuðu.
Alls óvíst er hvenær, og jafnvel hvort, núverandi atburði sloti. Mark Eakin, framkvæmdastjóri Alþjóðlega kóralrifjafélags og fyrrverandi yfirmaður kóralrannsókna hjá Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna, segir mögulegt að hitaálag sem valdi hnattrænni fölnun gangi aldrei til baka.
„Við horfum upp á eitthvað sem er að breyta algerlega ásýnd plánetunnar okkar og getu hafanna okkar til þess að halda uppi lífi og lífsviðurværi,“ segir Eakin við AP-fréttastofuna.
Varðveita kórala ef hægt verður að rækta þá aftur síðar
Eina leiðin til þess að stöðva fölnun og dauða kóralrifja er að koma böndum á hnattræna hlýnun með því að hætta bruna á jarðefnaeldsneyti og annari losun á gróðurhúsalofttegundum. Höf jarðar hafa tekið við um níutíu prósentum þeirrar umframhlýnunar sem menn hafa valdið með því að auka gróðurhúsaáhrifin við yfirborð jarðar.
Sums staðar eru vísindamenn byrjaðir að grípa til ráðstafana til þess að varðveita kórala þannig að möguleg verði hægt að rækta þá upp aftur þegar og ef mönnum tekst að stöðva hlýnunina. Þannig hefur hollensk rannsóknarstofa safnað brotum úr kórölum utan við Seychelles-eyjar í Indlandshafi til þess að rækta þá í dýragarði til varðveislu.
Horfurnar á því að hlýnunin verði stöðvuð í bráð virðast þó slæmar. Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna birti gögn í síðustu viku sem benda til þess að styrkur gróðurhúsalofttegundarinnar koltvísýrings í lofthjúpi jarðar hafi aldrei aukist meira en í fyrra. Árið 2024 var jafnframt hlýjasta árið í mælingarsögunni.