Upp­gjörið og við­töl: Fram - Haukar 18-30 | Gestirnir tóku forsytuna með risasigri

Haraldur Örn Haraldsson skrifar
haukar anton
vísir/Anton

Haukar unnu mjög sannfærandi 18-30 sigur gegn Fram í dag, í fyrsta leik liðanna í undanúrslita einvíginu í Olís-deild kvenna. Haukar leiða því einvígið 1-0 en þær þurfa að taka tvo sigra í viðbót til þess að fara áfram í úrslitaviðureignina.

Hauka konur fór mjög vel af stað í fyrri hálfleik og voru komnar með fjögurra marka forystu eftir tíu mínútna leik. Þá tóku Framarar leikhlé til að reyna að stöðva blæðinguna en það gekk ekki alveg eftir óskum.

Hauka konur náðu fljótlega að auka muninn í stöðuna 4-10 en þá jafnaðist leikurinn aðeins út. Mest náði Fram að minnka muninn í 10-14 á 27. mínútu en loka mínúturnar voru eign gestanna og lokatölur í hálfleik 10-17.

Rosalega mistæk frammistaða hjá Fram í fyrri hálfleik, mikið af töpuðum boltum og slökum skotum. Haukarnir nýttu sér það mjög vel og voru sanngjarnt með afgerandi forystu.

Seinni hálfleikurinn fór hægt af stað og það var ekki skorað mark fyrr en á fimmtu mínútu leiksins. Það breyttist hinsvegar voða lítið varðandi gang leiksins þar sem Hauka konur héldu bara áfram að vera töluvert betra liðið.

Fram hafði aðeins skorað þrjú mörk þegar 15 mínútur voru búnar af hálfleiknum og það var í raun alltaf ljóst hver væri að fara vinna leikinn. Tólf marka sigur var lokastaðan fyrir Hauka og þær taka mikið sjálfstraust inn í næstu leiki.

Atvik leiksins

Erfitt að velja eitthvað eitt atvik í leik sem annað liðið var með yfirhöndina allan tímann. Það var gaman að fá loksins mörk aftur í leikinn í seinni hálfleik þegar Elín Klara Þorkelsdóttir skorar með góðu undirhandarskoti á 40. mínútu.

Stjörnur og skúrkar

Elín Klara Þorkelsdóttir var markahæst í liði Hauka með níu mörk úr tólf skotum, hún var einnig með átta sköpuð færi og fimm stoðsendingar. Frábær leikur hjá henni í dag.

Alfa Brá Hagalín og Lena Margrét Valdimarsdóttir áttu ekki sinn besta leik fyrir Fram. Tveir mikillvægir leikmenn fyrir liðið en Alfa var með níu skot og fjögur mörk á meðan Lena var með átta skot og fjögur mörk. Þá voru þær báðar að tapa boltanum nokkrum sinnum á vondum tímum.

Dómararnir

Nokkuð auðveldur leikur fyrir teymið, en að því sögðu þarf líka að dæma þá. Flottur leikur hjá þeim.

Stemning og umgjörð

Stúkurnar sitthvoru megin, þ.e.a.s. Framara og Hauka megin voru svona hálf fullar. Þeir sem mættu voru í góðum gír og mátti heyra söngva og klapp mest allan leikinn. Það var engin flugeldasýning í stúkunni en það mun líkast til aukast þegar líður á þessa viðureign og það er meira undir.

Rakel Dögg: Ég bjóst ekki alveg við þessu

Rakel Dögg, þjálfari Fram.vísir / viktor freyr

„Það eiginlega bara lítið hægt að segja. Ég bjóst ekki alveg við þessu, verð að viðurkenna það. Ef maður greinir þennan leik svona beint eftir á þá bara náum við ekki takt varnarlega. Alveg líka sóknarlega, hægt að segja það, en þetta snýst aðallega um að ná takti varnarlega. Það er rosalega mikið bil á milli okkar og ekki nógu hreyfanlegar í fyrri hálfleik.“ Sagði Rakel.

Staðan í hálfleik var 10-17 og það var ljóst þá að Fram þurfti kraftaverk til að ná eitthvað úr þessum leik. Það gerðist hinsvegar ekki.

„Við komum okkur í vonda stöðu, það bara dregur úr okkur og eigum ekki nógu góðan sóknarleik í dag. Mér finnst samt leikmenn reyna allan tímann. Mér fannst við vera að halda uppi tempói og vorum að reyna, það var engin hræðsla heldur meira bara að við hittum ekki á daginn.“

Strax eftir 13 mínútna leik voru Framarar komnir í vonda stöðu þar sem staðan var 3-8. Sjálfstraustið hefur þá líkast til ekki verið hátt hjá leikmönnum sem hélt áfram út leikinn.

„Auðvitað spilar það inn í, það er alltaf erfitt að lenda mikið undir. Við vorum komin með þetta niður í fjögur mörk á tímabili og með tækifæri tvisvar eða þrisvar til að koma því niður í þrjú mörk. Það hefði verið allt önnur staða að fara inn í hálfleik þannig. Auðvitað hefur það áhrif þegar við erum ekki alveg að ná okkar leik. Þá kannski brotnar aðeins sjálfstraustið með. Það hefur auðvitað áhrif á sóknarleikinn líka í leiðinni.“

„Við þurfum bara að skoða þetta, staðan er bara 1-0 og það skiptir í raun og veru engu máli hvort maður tapar með einu eða tólf. Við þurfum bara að fara vel yfir þetta og mæta betur stemdar í næsta leik.“

Þetta var bara fyrsti leikurinn í einvíginu og það er því nóg eftir fyrir Fram til að snúa þessu við.

„Við höfum öll farið í gegnum úrslitakeppni áður og það eru sveiflur. Vissulega hefðum við viljað ná betri leik í dag en niðurstaðan er bara þessi. Það er 1-0 og nóg af leikjum eftir. Við þurfum bara að horfa á okkur og fókusera betur fyrir næsta leik og hirða þetta til baka þá.“

Stefán: Þýðir ekkert að við séum betri en Fram

Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, sáttur.Vísir/Hulda Margrét

Stefán Arnarson þjálfari Hauka var ánægður með úrslit kvöldsins en passaði að fara ekki fram úr sér því það er nóg eftir af einvíginu.

„Við bjuggumst við jöfnum leik, og Fram liðið er mjög gott, en svona gerist stundum í úrslitakeppni. Ég er búinn að vera lengi í þessu og svona getur gerst, en það þýðir ekkert að við séum betri en Fram.“

Fram liðið kemur úr pásu eftir að hafa setið hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Haukarnir komu hinsvegar í góðum gír inn í leikinn eftir að hafa unnið ÍBV í tveimur leikjum fyrir þennan leik.

„Ég held að það hafi alveg hjálpað okkur, en svo horfir þú á leikinn í dag ÍR-Valur, það var ekki að hjálpa ÍR. Ég held það hafi hjálpað okkur, það er oft erfitt að vera í langri pásu.“

Þrátt fyrir svona sannfærandi sigur gefur það ekki Haukum neitt meira en að leiða einvígið 1-0. Þær þurfa því að vera með fæturna á jörðinni fyrir næstu leiki.

„Það þarf að vinna þrjá vinninga. Þetta er eins og þegar maður fer í útileigu, maður verður að taka allt með, það má ekki gleyma prímusnum.“

Hauka liðið getur hinsvegar tekið mikið sjálfstraust úr þessum leik.

„Við spilum heilt yfir bara frábæra vörn og mjög góðan sóknarleik, og keyrum bara á þær. Þannig það heppnaðist allt hjá okkur, og það er ekkert oft sem það gerist.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira