Umræða um kynferðisofbeldi og sér í lagi hópnauðganir hefur verið hávær í samfélaginu undanfarna daga. Um miðjan apríl greindi Vísir frá því að sex hópnauðganir hefðu komið inn á borð lögreglu það sem af er ári.
Þá hefur verið fjallað um þrjá menn sem eru til rannsóknar grunaðir um tvær hópnauðganir en ganga þrátt fyrir það lausir.
Ummæli á samfélagsmiðlum og frétt á Fréttinni
Nú síðast hefur hávær umræða myndast um ummæli konu nokkurrar sem fullyrðir að hópur níu hælisleitenda hafi numið sextán ára stúlku á brott um páskana, haldið henni fanginni í fjölda klukkustunda og skipst á að nauðga henni.
Auk þess að hafa gengið manna á milli á samfélagsmiðlum hafa ummæli konunnar orðið að fréttaefni á Fréttinni og Fréttatímanum. Í frétt Fréttarinnar er ætluð hópnauðgun reifuð og haft eftir heimildum að upptökur af frelsissviptingunni liggi fyrir hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Kannast ekki við málið
Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir aftur á móti að ekkert mál sé til rannsóknar hjá embættinu sem geti passað við lýsingar á ætlaðri hópnauðgun um páskana. Engin tilkynning hafi borist um slíkt brot.