Chris Kempczinski, forstjóri og stjórnarformaður fyrirtækisins, segir að viðskiptavinir úr hópi lágtekjufólks og millistéttinni, sem hafi miklar áhyggjur af verðbólgu og versnandi efnahagsaðstæðum, hafi dregið verulega úr kaupum sínum á skyndibitum.
AP fréttaveitan hefur eftir forstjóranum að fyrirtækið geti staðið af sér þetta óveður betur en margir aðrir. McDonald‘s væri þó ekki ónæmt fyrir slæmum vendingum. Önnur fyrirtæki á markaði skyndibita vestanhafs hafa birt sambærileg ársfjórðungsuppgjör að undanförnum.
Á heimsvísu lækkaði salan hjá McDonald‘s um eitt prósent á fyrsta ársfjórðungi. Aukning varð á sölu í Japan, Kína og Mið-Austurlöndum og er það sagt hafa mildað samdrátt annars staðar í heiminum.
Greinendur höfðu spáð um tveggja prósenta söluaukningu á heimsvísu.
Kempczinski sagði við hluthafa í gær að forsvarsmenn fyrirtækisins hefðu búist við því að fyrsti ársfjórðungurinn yrði sá versti á árinu. Horfur fyrir næsta hafi þegar skánað töluvert. Forsvarsmenn fyrirtækisins standa enn við tekjuspár fyrir árið allt.