Innlent

Byssum stolið úr bíl­skúr í Kópa­vogi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglunni barst einnig tilkynning um að starfsmaður fyrirtækis í miðbænum hafi skorið sig lítillega á fingri.
Lögreglunni barst einnig tilkynning um að starfsmaður fyrirtækis í miðbænum hafi skorið sig lítillega á fingri. Visir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gærkvöldi eða nótt tilkynning um að brotist hefði verið inn í bílskúr í Kópavogi og tveimur byssum stolið þaðan. Einnig barst tilkynning um hópslagsmál barna í Breiðholti en það mál var, samkvæmt dagbók lögreglu, afgreitt á vettvangi.

Í heildina var 71 mál skráð í dagbókina milli fimm í gærkvöldi og fimm í morgun og gisti einn fangageymslu lögreglu eftir nóttina.

Lögreglunni barst í gær tilkynning um tvo þjófnaði úr verslunum í Múlunum og þjófnað úr verslun í Kópavogi. Þá barst tilkynning um skemmdarverk í hjólageymslu í Breiðholti en þar er ekki vitað hver var að verki.

Sömu sögu er að segja eftir innbrot í heimahús í miðbænum en þar er ekki vitað hverju var stolið né hver eða hverjir voru að verki.

Nokkrir ökumenn voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×