Háttsettar sendinefndir ríkjanna sátu á rökstólum í Sviss alla helgina og jákvæðar fregnir hafa borist um að viðræðurnar hafi verið uppbyggilegar og á jákvæðum nótum.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum segja samning í höfn en enn hefur lítið verið gefið út um hvað búið er að samþykkja. Vísitölur í Hong Kong fóru upp um rúmt prósent við fréttirnar og í Japan hækkuðu bréf einnig lítillega.
Verð á gulli hefur einnig lækkað eilítið, sem bendir til að fjárfestar séu óragari við að fjárfesta í hlutabréfum frekar og olíuverð hefur hækkað, sem sýnir aukna tiltrú manna á því að framleiðsla muni aukast á næstunni.
Búist er við því að síðar í dag verði nánari upplýsingar gefnar um hverju viðræðurnar í Sviss hafi skilað.