Fótbolti

Stríðinn hrafn fluttur á Laugar­dals­völl

Aron Guðmundsson skrifar
Á meðan að Kiddi vallarstjóri Laugardalsvallar hugar að grasi vallarins reynir hrafn að ala upp ungana sína eftir að hafa komið sér vel fyrir í stúkunni. Sá er ekki hrifinn af drónum.
Á meðan að Kiddi vallarstjóri Laugardalsvallar hugar að grasi vallarins reynir hrafn að ala upp ungana sína eftir að hafa komið sér vel fyrir í stúkunni. Sá er ekki hrifinn af drónum. Vísir/Samsett mynd

Þjálfari ís­lenska kvenna­lands­liðsins í fót­bolta vill fullan völl þegar Ís­land tekur á móti Frakk­landi á nýju grasi á Laugar­dals­velli í næsta mánuði. Völlurinn verður klár, óvæntir eftir­lits­menn fylgjast með störfum vallar­starfs­manna og stríða þeim

Tæpar þrjár vikur eru til stefnu þar til að Ís­land tekur á móti Frakk­landi í Þjóða­deild kvenna, leikurinn markar þátta­skil því hann verður sá fyrsti á nýju grasi á Laugar­dals­velli.

Lands­liðs­hópurinn var opin­beraður í gær og vallar­stjóri Laugar­dals­vallar er í ekki í neinum vafa um að völlurinn verði leik­hæfur en miklar fram­kvæmdir hafa staðið yfir á vellinum undan­farna mánuði og full­kominn hybrid völlur að verða til.

„Það eru tæpar þrjár vikur í leik og við stöndum mjög vel,“ segir Kristinn V. Jóhanns­son vallar­stjóri Laugar­dals­vallar. „Auðvitað er hann fjarska fal­legur eins og fyrir ykkur upp á Suður­lands­braut en það á margt eftir að gera og fram­undan eru mikilvægar þrjár vikur fyrir okkur. Við þurfum að styrkja rótar­kerfið, láta vöxtinn aukast og völlinn þétta sig.

Tæpar þrjár vikur í leik. Verður völlurinn leik­hæfur?

„Já. Alveg klár­lega.“

Ís­land byrjar á því að mæta Noregi ytra en svo Frökkum hér heima þann 3.júní. Þor­steinn Halldórs­son getur veðjað á sína bestu leik­menn í leikjunum. Fyrir­liðinn Glódís Perla Snýr aftur og hin brögðótta Agla María einnig. Mikilvægir leikir upp á fram­haldið í A-deild að gera og þjálfarinn vill fullan Laugar­dals­völl í síðasta heimaleik Íslands fyrir EM.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir, liðsfélagar og lykilmenn í íslenska landsliðinu, Getty/Alex Nicodim

„Þetta er stór stund,“ segir Þor­steinn Halldórs­son, lands­liðsþjálfari. „Al­gjör­lega frábært að fá tækifæri til að vígja þennan völl við þetta tækifæri og spila við góða þjóð eins og Frakka í leik sem mun skipta máli. Ég vonast til að fá fullan völl, fullt af fólki að styðja liðið og hjálpa því að ná í sigur.“

Passar drónaflug og litla fugla

Og sér­legir eftir­lits­menn, sem eru ekki hrifnir af dróna­flugi, sjá um að halda vallar­starfsmönnum KSÍ við efnið fram að leik. Myndar­leg hrafna­fjöl­skylda hefur komið sér vel fyrir á Laugar­dals­velli.

„Þeir eru hérna að stríða okkur, hrafninn,“ segir Kristinn vallarstjóri. „Hann náði að verpa í laupinn sinn og við getum ekkert gert við því núna. Hann passar allt dróna­flug og litla fugla.“

Hrafninn elti dróna fréttastofunnar um Laugardalsvöll, skiljanlega ekki sáttur með áreitið.

Mánuður hefur liðið síðan að sáð var í völlinn og Kristinn segir stöðuna góða miðað við það.

„Við erum nokkuð sáttir. Þegar að þú sáir í næstum hektara svæði þá eru ein­hver svæði sem eru verri en önnur en við erum að vinna í þeim litlu svæðum sem komu verr út. Heilt yfir er þetta þó bara orðið nokkuð gott.“

Engar afsakanir

Kristinn og hans vallar­starfs­fólk komið með nýjan grip í hendurnar sem hugsa verður vel um.

„Við vorum með völl sem var með hlaupa­braut og engum hita. Völl sem var frá 1960. Núna erum við að fá nýjan völl, fá undir­hita, taka hlaupa­brautina í burtu og færa völlinn til. Það breytist mikið varðandi viðhald og annað en þetta er enn þá gras­völlur. Við þurfum að slá hann, vökva og bera á. Hugsa um hann. Tíma­bilið okkar núna er ekki eins og það gamla, frá apríl til október. Núna er þetta allt árið um kring og við þurfum að hugsa um hann þannig.“

Engar af­sakanir dugi nú.

„Ég og mitt starfs­fólk höfum unnið við ýmsar aðstæður, núna fáum við tól í hendurnar sem verður til þess að við verðum að hafa góðan völl, núna eru engar af­sakanir en ég held að vallaraðstæður hér bæði í júní og komandi leikjum verði frábærar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×