Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að maðurinn hafi látist á Landspítalanum fyrr í dag. Lögreglan tilkynnti í gær að maður hefði látist í brunanum og að annar lægi þungt haldinn á sjúkrahúsi. Hann er nú einnig látinn.
Í tilkynningu segir að þriðji maður hafi verið í íbúðinni og að hann liggi nú á Landspítala, þó ekki í lífshættu.
Mikill viðbúnaður
Slökkviliði barst tilkynning um eldinn klukkan tíu mínútur yfir tíu í gærmorgun. Þrír fullorðnir karlmenn voru í íbúðinni þegar eldurinn kom upp.
Mikill viðbúnaður var á vettvangi en vettvangsstjóri hjá slökkviliðinu tjáði fréttastofu að slíkt væri alltaf tilfellið ef tilkynningar bærust um eld í fjölbýlishúsi.
Rannsaka hvort nokkuð saknæmt hafi átt sér stað
Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að rannsókn á eldsupptökum stæði enn yfir. Hún væri umfangsmikil og myndi taka tíma.
„Hvort þetta sé saknæmt, það er líka eitt af því sem er til rannsóknar. Eldsupptökin yfir höfuð, hvers vegna kviknaði í? Hvort það hafi gerst með saknæmum hætti eða ekki? Það er það sem við erum að skoða.“