Í athugasemd við TikTok-myndband áhrifavaldarins Rachel Leary greindi Jenner frá stærð og gerð púðanna, og nafn lýtalæknisins sem framkvæmdi aðgerðina.
„445 cc, miðlungs lyfting, hálfir undir vöðva. Silíkon-gel. Garth Fisher. Vonandi hjálpar þetta,“ skrifaði Jenner, en eyddi ummælunum stuttu síðar.
Rachel Leary hafði óskað eftir upplýsingunum um hvernig brjóstaaðgerð Jenner hafði farið í, þar sem henni þótti útlitið svo náttúrulegt og fallegt. Hún spurði hvort um ígræðslur eða fituflutning væri að ræða og vildi fá að vita leyndarmálið á bak við útlitið.
Dr. Garth Fisher lýtalæknirinn er einn þekktasti lýtalæknirinn í Beverly Hills og hefur unnið mikið með Kardashian-fjölskyldunni.
Ráðleggur konum að bíða
Þetta er í fyrsta skipti sem Jenner opinberar nákvæmar upplýsingar um aðgerðina. Hún hafði áður rætt hana í raunveruleikaþáttunum The Kardashians árið 2023, þar sem hún sagði að hún hefði farið í aðgerðina áður en hún varð móðir og hefði þá ekki haft í huga að eignast barn svo ung.
Jenner hefur einnig talað opinskátt um hvernig móðurhlutverkið hafi breytt sýn hennar á sjálfa sig og fegrunaraðgerðir:
„Ég lét fylla brjóstin á mér áður en ég átti Stormi. Þau voru enn að gróa sex mánuðum eftir fæðinguna. Ég var aðeins tvítug og hugsaði ekki um móðurhlutverkið þá.“
Hún ráðleggur konum að bíða með slíkar aðgerðir þar til eftir barneignir:
„Brjóstin mín voru falleg og náttúruleg, rétt stærð og lögun. Ég myndi segja öllum sem hugsa um svona aðgerð að bíða með hana þar til eftir barneignir.“