Líkt og fram hefur komið barst slökkviliðinu tilkynning um eldinn klukkan tvö í nótt. Slökkvistarfi lauk um tveimur tímum síðar en glerbrot má sjá á víða og dreif fyrir utan efnalaugina.
Vettvangsrannsókn er nú í gangi samkvæmt upplýsingum frá Ásmundi Rúnari Gylfasyni aðstoðaryfirlögregluþjóni og liggur ekkert fyrir um upptök eldsins.
Kristinn Kristinsson eigandi efnalaugarinnar segist eðli málsins samkvæmt í áfalli.
„Þetta er svakalegt áfall og mikið sjokk. Mikilvægast núna er að hlúa að starfsfólkinu og fjölskyldunni. Við erum afar þakklát fyrir það að slökkviliðið var fljótt á staðinn og fegin að það reyndust engin hættuleg efni til staðar þarna.“
Efnalaugin Björg hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá árinu 1953. Þá hefur hún verið til staðar á Háaleitisbraut í rúm sextíu ár, frá árinu 1967.
Kristinn segist ekki hafa fengið að mæta í efnalaugina í dag, enda sé vettvangur til rannsóknar lögreglu. „En manni hefur sýnst vera fatnaður þarna inni sem er heill, sem þá er vonandi hægt að þrífa.“