Hátíðin hóf göngu sína árið 2016 sem Kátt á Klambra á Klambratúni í Reykjavík en eftir erfiðleika í samskiptum við Reykjavíkurborg er hátíðin nú haldin á Víðistaðatúni um næstu helgi. Hátíðin er haldin í samstarfi við Bjarta daga sem er á vegum Hafnarfjarðarbæjar.

Í fyrsta skipti nær hátíðin yfir tvo daga.
„Þetta er í fyrsta skipti sem við erum með tveggja daga hátíð og það hefur verið eitthvað sem okkur hefur dreymt um lengi. Í fyrra þegar við vorum að taka til var fólk að koma og spyrja hvort það væri ekki annar dagur,“ segir Hafdís Arnardóttir, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.
Fjölbreytt dagskrá er í boði. Til að mynda verður svið á hátíðinni þar sem tónlistarfólkið Gugusar, Aron Can, Emmsjé Gauti og Inspector Spacetime treður upp. Í sérstöku tjaldi verður sett upp krakka rave þar sem aðrir ungir sem aldnir plötusnúðar þeyta skífum og krökkum gefst tækifæri til að dilla sér á upplýstu gólfi.
„Svo erum við með tvo unga plötusnúða sem eru að loka hátíðinni sitthvorn daginn. Þeir eru átta og níu ára. Annar þeirra spilaði fyrir okkur í fyrra og hann er alveg æðislegur,“ segir Hafdís en um er að ræða plötusnúðana DJ Jakob Orri og DJ BFK.
Þá verða ekki einungis tónlistarviðburðir heldur einnig sérstakar smiðjur þar sem þeim sem sækja hátíðina gefst meðal annars tækifæri til að læra gera graffítí, taka þátt í gerð táfýlutextíls, búa til manga og skartgripi.
„Embla Bachmann ætlar að vera með hugmyndsmiðju. Hún ætlar að kenna börnum að vera með trú á hugmyndum sínum og hvernig eigi að vinna með þær,“ segir Hafdís.
Ritsmiðja Emblu verður í sérstöku bókatjaldi.
Að sögn Hafdísar er hátíðin ætluð öllum börnum til átján ára aldurs og er lagt upp með að hafa eitthvað sem hæfir öllum aldurshópum. Á túninu sjálfu verður Legotjald, ljósmyndabás, barnanudd, hársmiðja og auðvitað hin klassíska andlitsmálun. Einnig verði sett upp sérstakt foreldratjald með skiptiaðstöðu.

„Við erum með dagskrá á sviðinu sem hentar unglingum, við erum með graffítísmiðju og tölvuleikjatjaldi,“ segir Hafdís. „Við reynum alltaf að vera með einhverja afþreyingu á sviði, túni og í smiðjum sem hentar öllum aldurshópum.“
Hér má sjá myndskeið frá hátíðinni í fyrra: