Innlent

„Lang­þreytt á að það séu boðaðir fundir þegar eitt­hvað kemur upp á“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aðstæður í tengslum við vegaframkvæmdir geta skapað hættu fyrir bifhjólafólk.
Aðstæður í tengslum við vegaframkvæmdir geta skapað hættu fyrir bifhjólafólk. Vísir/Vilhelm

Bifhjólafólk er orðið langþreytt á að bíða eftir að meira tillit sé tekið til þeirra í vegakerfinu. Þau hafi áhyggjur af stöðunni og vilji að rödd þeirra heyrist. Bifhjólamaður lést í umferðarslysi í Reykjavík í vikunni.

Málefni bifhjólafólks hafa verið í umræðunni síðustu vikur í tengslum við frumvarp um álagningu kílómetragjalds en öryggismál bifhjólafólks sömuleiðis. Í byrjun sumars vakti athygli myndband sem sýndi bifhjólamann renna á vegamerkingu í Reykjavík og í vikunni lést ökumaður bifhjóls í slysi á Miklubraut.

Kristrún Tryggvadóttir bifhjólakona segir að svo virðist sem ekki sé tekið nægilega mikið tillit til bifhjólafólks í vegakerfinu og í umgengni við það, ýmislegt geti skapað hættu.

„Vegrið, kantar, staurar og ef það verður fall af bifhjóli þá er það sem tekur við okkur eftir það. Hvort það eru aðrir í umferðinni eða vegakerfið,“ sagði Kristrún í kvöldfréttum Sýnar.

„Við höfum áhyggjur af þessu“

Bifhjólafólk hefur unnið leiðbeiningar fyrir framkvæmdaaðila en Kristrún efast um hve mikið þær eru nýttar.

„Við myndum vilja sjá mikla bót þar á og erum orðin langþreytt á það eru boðaðir fundir þegar eitthvað kemur upp og það á að gera eitthvað en svo bara líða árin og ekkert gerist.“

Kristrún segir of algengt að lausamöl berist á vegi, hún geri veginn flughálan. Vegamerkingar og nýtt malbik geti einnig skapað hættu. Hún segir bifhjólafólk vita að engum gangi illt til en segir að vegakerfið eigi að vera hægt að hanna með tilliti til bifhjólafólks.

„Við viljum bara fá þessa rödd að hún heyrist, að við höfum áhyggjur af þessu og við viljum vinna með fólki til að bæta þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×