Innlent

Spellvirkinn líka grunaður um líkams­á­rás og man­sal

Árni Sæberg skrifar
Sérsveitin handtók manninn við Urriðaholt. Hending ein réð því að sérsveitin sinnti því verkefni.
Sérsveitin handtók manninn við Urriðaholt. Hending ein réð því að sérsveitin sinnti því verkefni. Vísir

Greint var frá því í gær að karlmaður hefði verið handtekinn af sérsveitinni í Garðabæ vegna gruns um skemmdarverk í Reykjavík. Síðar var greint frá að maður hefði verið handtekinn grunaður um líkamsárás, hótanir og mansal. Um sama mann og sama mál er að ræða.

Maðurinn var handtekinn í Urriðaholti í Garðabæ klukkan 12:40 í gær og það af sérsveitinni. Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, sagði í samtali við Vísi að maðurinn hefði verið grunaður um skemmdarverk í Reykjavík.

Í dagbókarfærslu lögreglu síðdegis í gær sagði svo frá manni sem hefði verið handtekinn í Laugardalnum í Reykjavík grunaður um líkamsárás, hótanir og mansal.

Þegar Vísir bar málin tvö undir áðurnefndan Unnar Má kom í ljós að um eitt og sama málið væri að ræða. 

Tilviljun að sérsveitin handtók manninn

Unnar Már segir að atburðarásin hafi hafist í Laugardalnum þegar meintur brotaþoli hafi leitað til lögregluþjóna utandyra og greint frá því að hinn handtekni hefði ráðist að honum og skemmt bíl hans. 

Lögregla hafi þá lýst eftir bíl mannsins og sérsveitarmenn hafi komið auga á hann í Urriðaholtinu. Tilviljun ein hafi ráðið því að sérsveitin hafi handtekið mannin, enda hafi engin hætta verið talin stafa af honum. Með í för hafi verið kona sem tengdist honum fjölskylduböndum.

Grunaður um að greiða ekki tilskilin laun

Unnar Már segir að maðurinn sé enn í haldi lögreglu og skýrslutökur yfir honum hafi hafist fyrir hádegi. 

Auk þess að vera grunaður um líkamsárás gagnvart brotaþola og skemmdarverk á bíl hans sé hann grunaður um mansal, með því að hafa meintan brotaþola í vinnu án þess að greiða honum tilskilin laun. Eða svokallað vinnumansal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×