Innlent

Mikill kraftur í ís­lensku at­vinnu­lífi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigríður Margrét Oddsdóttir, sem er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var meðal annars með framsögu á fundinum í Þorlákshöfn.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, sem er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var meðal annars með framsögu á fundinum í Þorlákshöfn. Vísir/Einar

„Það er mikill kraftur í fólki og það er mikill kraftur í fyrirtækjum landsins allan hringinn í kringum landið”, segir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Gott dæmi um það sé sandur, sem er breytt í steinull, sem seld er til Færeyja.

Samtök atvinnulífsins voru nýlega á hringferð um landið þar sem níu staðir á landsbyggðinni voru heimsóttir. Fjölmargar spurningar komu fram á fundinum og umræður voru oft líflegar,

Sigríður Margrét Oddsdóttir, sem er framkvæmdastjóri samtakanna segir að það hafi verið sérstaklega gaman að finna kraftinn í fólkinu og forsvarsmönnum fyrirtækja á fundunum hvað varðar öflugt og gott atvinnulíf. Einn af fundinum var haldin í Þorlákshöfn.

„Það er mikill kraftur í fólki og það er mikill kraftur hjá fyrirtækjum landsins allan hringinn í kringum landið og það er alveg magnað þessi verðmæti, sem við erum að sjá fólk vera að skapa. Það er verið að taka sand og breyta honum í steinull og selja hana til Færeyja. Við erum með frábær ferðaþjónustufyrirtæki, sem eru að búa til úr jarðsjó, búa sem sagt til baðupplifun og húðvörur með lækningamátt,” segir Sigríður.

Sigríður segist líka sjá ný risa fyrirtæki verða til eins og í tengslum við landeldi í Þorlákshöfn.

„Það er magnað að sjá einmitt að við getum orðið raunverulega svona miðstöð útflutnings á mjög mikilvægu próteini, sem er verið að framleiða hér. Það eru svo sannarlega aðilar, sem hafa hugrekki og kjark og athafna vilja, sem eru að byggja upp til dæmis hér í Þorlákshöfn, þannig að þetta er okkur ómetanlegt að fara í svona hringferðir og tala við fólk,” bætir Sigríður við.

Fundurinn í Þorlákshöfn var vel sóttur og líflegur.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það hlýtur að vera gaman að upplifa svona jákvæða og góða stemningu?

„Það er rosalega skemmtilegt en skemmtilegast er að það mæta helmingi fleiri á fundina en voru búnir að skrá sig, maður þarf að panta auka veitingar,” segir Sigríður Margrét hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×