Skoðun

Mikil­vægi fé­laga­sam­taka og magnað mara­þon

Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar

Á morgun fer Reykjavíkurmaraþonið fram þar fjölmargir hlauparara safna áheitum til styrktar góðgerðarfélögum, minningasjóðum og einstaklingum sem stuðla að betra samfélagi. Þarna fá góð og þörf málefni kastljósið sem mörg hver eru á hendi félagasamtaka sem augljóslega eru mikils metin vegna jákvæðra áhrifa þeirra á samfélagið.

Sjálfsbjörg lsh. er eitt þeirra félaga sem fá kastljósi beint að sér fyrir sín baráttumál, sem eru aðgengi, endurhæfing, hjálpartæki, bílastæðamál, bílastyrkjamál o.fl. Vegna félagsins er Kjarkur endurhæfing til, sem er mjög mikilvægt endurhæfingaúrræði og mörg sem hafa notið þar faglegrar og góðrar endurhæfingar. P-merki eru til vegna baráttu Sjálfsbjargar og þá hafa lög og reglugerðir tengd aðgengi að manngerðu húsnæði og umhverfi tekið breytingum til betri vegar vegna ábendinga og þrýstings frá Sjálfsbjörg í gegnum áratugina. Sömu sögu má segja um bifreiðastyrki fyrir hreyfihömluð og aðgengismál innan sveitarfélaga. Félagið er því dýrmætt öllu félagsfólki, og það er ekki síður dýrmætt öðrum þeim sem vilja samfélag þar sem öll hafa tækifæri til þátttöku á eigin forsendum. Það nefnilega veit engin hvað morgundagurinn ber í skauti sér.

Um leið og ég óska góðgerðarfélögum og öllum hlaupurum sem safna áheitum, góðs gengis, þakka ég öllum þeim sem heitið hafa á hlaupara fyrir Sjálfsbjörg, og sérstaklega hlaupurunum sem valið hafa að leggja verkefnum Sjálfsbjargar lið.

Njótum Menningarnætur og höfum kærleika og tillitssemi að leiðarljósi!

Höfundur er formaður Sjálfsbjargar lsh.




Skoðun

Sjá meira


×