Innlent

For­stöðu­menn fangelsa lýsa kerfislægri krísu og segja á­standið óásættan­legt

Eiður Þór Árnason skrifar
Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Fangelsisins á Hólmsheiði, Rannveig Brynja Sverrisdóttir, öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar, Heiðar Smith, formaður Fangavarðafélags Íslands og  Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, hafa miklar áhyggjur af stöðu fangelsismála. Á myndina vantar Kristínu Evu Sveinsdóttur, forstöðumann Litla-Hrauns.
Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Fangelsisins á Hólmsheiði, Rannveig Brynja Sverrisdóttir, öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar, Heiðar Smith, formaður Fangavarðafélags Íslands og Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, hafa miklar áhyggjur af stöðu fangelsismála. Á myndina vantar Kristínu Evu Sveinsdóttur, forstöðumann Litla-Hrauns. Vísir

Fangelsismál á Íslandi eru í langvinnri kerfislægri krísu, boðunarlistar í fangelsi lengjast og á sama tíma fyrnast dómar. Þetta segja forstöðumenn tveggja fangelsa, öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar, Fangavarðafélag Íslands og Afstaða sem gagnrýna öll stefnu stjórnvalda eftir að fram kom að lækka eigi stofnfjárframlag til byggingar á nýju fangelsi tímabundið um 400 milljónir króna á þessu ári. 

„Ástand fullnustukerfisins einkennist af langvarandi vanfjármögnun, ófullnægjandi innviðum og aukinni öryggisáhættu gagnvart bæði föngum og starfsfólki. Þrátt fyrir viðvaranir frá bæði eftirlitsaðilum og stofnuninni sjálfri í áratugi hefur nauðsynleg uppbygging setið á hakanum,“ segir í yfirlýsingu hópsins. Þau segja ástand fangelsismála vera óásættanlegt.

Málaflokkurinn hafi um árabil búið við skertar fjárheimildir, úreltan húsakost og úrræði af skornum skammti, „allt með þeim afleiðingum að öryggi starfsfólks og fanga [sé] stefnt í hættu og virkni kerfisins skert til muna.“

Tölvuteiknuð loftmynd af hvernig fangelsissvæðið á Stóra-Hrauni gæti litið út þegar það verður tilbúið.Framkvæmdasýslan ríkiseignir

Til stendur að reisa nýtt öryggisfangelsi á Stóra-Hrauni á Eyrarbakka og verður það skammt frá Litla-Hrauni. Undir lok síðasta árs var greint frá því að fangelsið ætti að koma í stað Litla-Hrauns og yrði með um hundrað rými fyrir fanga með möguleika á að bæta við 28 afplánunarrýmum síðar. Kostnaður við verkefnið var þá áætlaður um sautján milljarðar króna. 

Kristín Eva Sveinsdóttir, forstöðumaður Litla-Hrauns, Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Fangelsisins á Hólmsheiði, Rannveig Brynja Sverrisdóttir, öryggisstjóri Fangelsismálastofnunar, Fangavarðafélag Íslands og Afstaða, félag fanga og áhugamanna um fangelsismál skora öll á stjórnvöld að tryggja markvissa og nægilega fjármögnun og móta skýra framtíðarsýn um faglegt, öruggt og mannúðlegt fullnustukerfi. Það sé forsenda þess að íslenskt réttarríki standist alþjóðleg viðmið og samfélagslegar skyldur.

Fangaverðir þurft aðstoð sérsveitar

„Starfsfólk fangelsa hefur undanfarin misseri þurft að takast á við sífellt flóknari skjólstæðingahóp og fjölgun þungra ofbeldismála. Ofbeldi gegn fangavörðum hefur aukist og nýlega þurftu fangaverðir aðstoð sérsveitar vegna ástands sem skapaðist í fangelsinu Litla-Hrauni. Öryggisrými eru fullnýtt og ekki unnt að aðskilja fanga með ólíkar meðferðar- og öryggisþarfir, sem eykur hættu á átökum og ófyrirséðum atvikum,“ segir í tilkynningunni.

Hópurinn segir fangelsið á Litla-Hrauni ítrekað hafa hlotið gagnrýni fyrir „óviðunandi húsnæðisaðstöðu sem hvorki [uppfylli] öryggiskröfur né skilyrði um mannúðlega vistun.“ Þá hafi Ríkisendurskoðun og Umboðsmaður Alþingis jafnframt bent á að aðbúnaður fanga og starfsfólks sé heilsuspillandi, faglega óviðunandi og hamli framkvæmd laga um fullnustu refsinga.

Skortur á viðeigandi heilbrigðisþjónustu

Til viðbótar hafi Hólmsheiði verið reist með áherslu á skammtímavistun fanga en sé nú í auknum mæli notað sem langtímavistunarúrræði vegna skorts á aðstöðu og úrræðum annars staðar. Þetta auki álag á starfsfólk og dragi úr sveigjanleika fangelsiskerfisins í heild. Uppbygging nýs öryggisfangelsis á Stóra-Hrauni er því sögð brýn og tímabær. 

Hópurinn segir að skortur sé á viðeigandi heilbrigðis- og geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsiskerfisins og meðferðar- og endurhæfingarúrræði takmörkuð. Skert aðgengi að menntun og úrræðum dragi jafnframt úr líkum á árangursríkri betrun og samfélagslegri endurkomu fanga.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra vill sjá nýtt fangelsi á Stóra Hrauni sem fyrst

Forsætisráðherra leggur áherslu að framkvæmdir við nýtt fangelsi á Stóra Hrauni á Eyrarbakka hefjist sem fyrst enda byggingarnar í fangelsinu á Litla Hrauni orðnar mjög lélegar og verða þær meira og minna jafnaðar við jörðu með tilkomu nýja fangelsisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×