Innlent

Annar full­trúa Fram­sóknar hættur í bæjar­stjórn Kópa­vogs

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigrún Hulda Jónsdóttir, deildarstjóri leikskóladeildar Kópavogsbæjar og fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknar.
Sigrún Hulda Jónsdóttir, deildarstjóri leikskóladeildar Kópavogsbæjar og fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknar. Aðsend

Bæjarstjórn Kópavogs féllst á beiðni Sigrúnar Huldu Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Framsóknar, um varanlega lausn frá störfum út kjörtímabilið á fundi sínum á þriðjudag. Hún hefur starfað sem deildarstjóri leikskóladeildar Kópavogsbæjar undanfarin misseri.

Sigrún Hulda skipaði annað sæti framboðslista Framsóknar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022. Hún var þá leikskólastjóri heilsuleikskólans Urðarhóls. 

Hún óskaði eftir tímabundinni lausn frá störfum frá 1. október í fyrra til 31. ágúst. Björg Baldursdóttir hefur setið sem aðalmaður í bæjarstjórn síðan þá. Ekki kom fram í fundargerðinni hvers vegna Sigrún Hulda hefði óskað lausnarinnar.

Svo virðist sem að Sigrún Hulda hafi þá verið ráðin sem deildarstjóri leikskóladeildar bæjarins. Hún er titluð sem slíkur í fundargerð leikskólanefndar 31. október í fyrra en engin tilkynning virðist hafa birst á vef bæjarins um ráðninguna.

Varanleg afsögn Sigrúnar Huldu tók gildi 1. september. Ástæður hennar eru sagðar persónulegar í bréfi hennar til bæjarstjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×