Skoðun

Opið bréf til um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráðherra

Bogi Ragnarsson skrifar

Kæri ráðherra,

Ég skrifa þetta bréf vegna vaxandi áhyggja minna af stöðu loftslagsmála á Íslandi. Við stöndum frammi fyrir mikilli áskorun sem krefst skýrra aðgerða, en samt virðist pólitísk skammsýni og ábyrgðarflótti ráða ferðinni.

Ísland sendi inn sitt fyrsta landsframlag árið 2016 og uppfærði það í febrúar 2021. Þar kemur fram að Ísland stefni að 55% samdrætti í nettólosun árið 2030 miðað við 1990, í samvinnu við ESB, aðildarríki þess og Noreg (Loftslagsráð, e.d.). Þetta er metnaðarfullt markmið, en spurningin er hvort við séum á leiðinni þangað. Gögn sýna að árleg losun Íslands hefur ekki farið minnkandi, heldur haldist há. Árið 2023 var hún um 3,8 milljónir tonna CO₂, sem er mesta losun í sögunni ef árið 2008 er undanskilið (Our World in Data, e.d.-a; Ritchie og Roser, 2020/2024). Þegar litið er á losun á hvern íbúa sést að Íslendingar losa tæplega 10 tonn á mann, sem er mun meira en önnur Norðurlönd (Our World in Data, e.d.-b).

Það sem gerir stöðuna enn alvarlegri er samanburðurinn við nágranna okkar. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland hafa á síðustu áratugum dregið hratt úr losun, bæði í heild og á hvern íbúa. Þar hefur stefnumótun og orkuskipti skilað árangri – losun á hvern íbúa hefur dregist verulega saman frá hámarki seint á 20. öld (Our World in Data, e.d.-c; Our World in Data, e.d.-d). Samkvæmt gögnum um neyslutengda losun á hvern íbúa hefur kolefnisspor á Norðurlöndum dregist saman um 30–50% frá 1990 til 2022 (Our World in Data, e.d.-e). Svíþjóð er nú með um 6.5 tonn CO₂ á mann, Danmörk og Noregur um 6–8 tonn, og Finnland um 9 tonn (Our World in Data, e.d.-e). Til samanburðar er neyslutengt kolefnisspor hins almenna Íslendings um 12 tonn CO₂ ígilda á ári. Þetta er um þrefalt hærra en æskilegt væri til að ná 1,5°C markmiðinu samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Til að fylgja því þyrfti kolefnissporið að vera komið niður í um 4 tonn á mann á ári (Kolefnisreiknir, e.d.). Þetta sýnir að Ísland stendur ekki jafnfætis nágrannaríkjum sínum í að draga úr losun. Við getum ekki réttlætt þessa stöðu með því að vísa til þess að við séum „lítið land“. Þvert á móti, sem hluti af Norðurlöndum og alþjóðasamfélaginu, ber okkur skylda til að vera í fararbroddi – ekki eftirbátur. Ef nágrannalönd okkar geta sýnt metnað og árangur, þá er það ekki skortur á möguleikum sem heldur aftur af okkur, heldur skortur á pólitískri forystu og hugrekki til að láta hagsmunagæslu víkja fyrir framtíðarsýn.

Loftslagsmál eru ekki aðeins spurning um tölur á blaði. Þau snúast um samfélagslega ábyrgð og réttlát umskipti fyrir komandi kynslóðir. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga verulega úr losun, en gögnin sýna svart á hvítu að við erum að dragast aftur úr, á meðan hin Norðurlöndin ná árangri. Ég hvet þig sem ráðherra til að sýna forystu. Við þurfum að binda endi á ábyrgðarflótta, efla alþjóðasamvinnu og hrinda í framkvæmd stefnu sem miðar að raunverulegum samdrætti í losun. Ísland getur ekki leyft sér að vera síðasti hlekkurinn í keðjunni – framtíðin krefst þess að við bregðumst við núna.

Höfundur kennir félagsfræði og umhverfis- og loftslagsbreytinga.


Heimildir

Kolefnisreiknir. (e.d.). Kolefnisspor íbúa á Íslandi. Sótt 3. október 2025 af https://www.kolefnisreiknir.is

Loftslagsráð. (e.d.). Skuldbindingar Íslands. Sótt 3. október 2025 af https://loftslagsrad.is/heim/loftslagsbreytingar/skuldbindingar_islands/

Our World in Data. (e.d.-a). Annual CO₂ emissions – Iceland. Sótt 3. október 2025 af https://ourworldindata.org/grapher/annual-co2-emissions-per-country?country=~ISL

Our World in Data. (e.d.-b). CO₂ emissions per capita – Iceland. Sótt 3. október 2025 af https://ourworldindata.org/grapher/co-emissions-per-capita?country=~ISL

Our World in Data. (e.d.-c). Annual CO₂ emissions – Nordic countries. Sótt 3. október 2025 af https://ourworldindata.org/grapher/annual-co2-emissions-per-country?country=SWE~NOR~DNK~FIN&mapSelect=~ISL

Our World in Data. (e.d.-d). CO₂ emissions per capita – Nordic countries. Sótt 3. október 2025 af https://ourworldindata.org/grapher/co-emissions-per-capita?country=NOR~DNK~SWE~FIN

Our World in Data. (e.d.-e). Per capita consumption-based CO₂ emissions – Nordic countries. Sótt 3. október 2025 af https://ourworldindata.org/grapher/consumption-co2-per-capita?tab=line&country=NOR~SWE~DNK~FIN&mapSelect=~NOR

Ritchie, H., & Roser, M. (2020, endurskoðað 2024). CO₂ emissions. Our World in Data. Sótt 3. október 2025 af https://ourworldindata.org/co2-emissions




Skoðun

Sjá meira


×