Viðskipti erlent

Herða hreðjatakið á birgðakeðjum Vestur­landa

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínverjar eru með mikla yfirburði á heimsvísu þegar kemur að námugreftri sjaldgæfra málma og vinnslu þeirra.
Kínverjar eru með mikla yfirburði á heimsvísu þegar kemur að námugreftri sjaldgæfra málma og vinnslu þeirra. AP/Cinatopix

Ráðamenn í Kína tilkynntu í morgun nýja tálma á sölu svokallaðra sjaldgæfra málma og afurða úr þeim auk þess sem tálmar hafa einnig verið settir á útflutning liþíumrafhlaðna og búnaðar til að framleiða þær. Þessir málmar og vörur eins og sérstakir seglar eru nánast eingöngu fáanlegir í Kína og eru gífurlega mikilvægir birgðakeðjum fyrirtækja og ríkja um allan heim.

Erlend fyrirtæki munu þurfa leyfi yfirvalda í Kína til að flytja úr landi sjaldgæfa málma eða vörur sem innihalda lítið magn þeirra og tilkynna í hvað þær vörur eiga að vera notaðar.

Tálmarnir nýju munu líklega koma verulega niður á hergagnaframleiðslu og framleiðslu rafmagnsbíla víða um heim. Wall Street Journal hefur eftir talsmönnum viðskiptaráðuneytis Kína að útflutningur sem talinn er vera ætlaður til hergagnaframleiðslu verði líklega ekki samþykktur af ráðamönnum þar.

Einhverjir tálmar hafa þegar tekið gildi og aðrir munu taka gildi á komandi vikum.

Tálmunum er samkvæmt ráðuneytinu ætlað að tryggja þjóðaröryggi Kína. Aðgengi að sjaldgæfum málmum hefur spilað stóra rullu í viðskiptadeilum Kínverja og Bandaríkjamanna á undanförnum mánuðum.

Styrkja stöðu Xi fyrir viðræður við Trump

Þessar aðgerðir munu líklega styrkja samningsstöðu Xi Jinping, forseta Kína, sem mun líklega funda með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Suður-Kóreu seinna í mánuðinum. Eins og bent er á í frétt BBC endurspegla nýju tálmarnir sambærilegar reglur Bandaríkjamanna varðandi útflutning á háþróuðum tölvuflögum til Kína.

Eftir að Trump beitti Kína og fjölmörg önnur ríki heims umfangsmiklum tollum í apríl lýstu ráðamenn í Kína því yfir að útflutningur yrði takmarkaður á nokkrum tegundum sjaldgæfra málma og segla sem eru framleiddir úr þeim.

Sjá einnig: Trump segir sjald­gæfa málma og segla aftur á leið til Banda­ríkjanna

Slíkir seglar eru notaðir í framleiðslu alls konar vara, eins og snjallsíma og orrustuþotur. Seglarnir eru sérstaklega nauðsynlegir við framleiðslu rafmagnsbíla.

Áhugasamir geta horft á nokkurra mínútna langt útskýringarmyndband Reuters um sjaldgæfa málma hér að neðan.

Einráðir á einstaklega mikilvægum markaði

Sjaldgæfir málmar finnast víða í skorpu jarðarinnar. Þeir eru þó sjaldan í æðum eða á takmörkuðum svæðum, heldur finnast þeir oftar en ekki dreifðir í tilteknu bergi. Vegna þessa getur reynst erfitt að sækja þá í jörðina og þar að auki er vinnsla þeirra erfið og hefur slæm áhrif á umhverfið.

Málmarnir eru þó nauðsynlegir við framleiðslu nútímatækja og tóla eins og tölva, bíla, rafhlaðna og hergagna, eins og áður hefur verið nefnt.

Kínverjar eru með gífurlegt forskot á heimsvísu þegar kemur að grefti og vinnslu sjaldgæfra málma en vinnslan hefur dregist verulega saman í Bandaríkjunum á undanförnum áratugum.

Talið er að Kínverjar grafi um 61 prósent sjaldgæfra málma heimsins úr jörðu. Nánast öll vinnsla þeirra fer þó fram í Kína en Kínverjar eru taldir vera með um 92 prósenta markaðshlutdeild, heilt yfir. Kínverjar eru nánast þeir einu sem framleiða nokkra málma.

Sjá einnig: Viðvörunarbjöllur glymja vegna Kína og sjaldgæfra málma

Ráðamenn í Kína hafa varið miklum tíma og fjármunum í að skapa sér þessa yfirburðastöðu á markaði sjaldgæfra málma. Forsvarsmenn vestrænna fyrirtækja á sviði hergagnaframleiðslu og framleiðslu rafmagnstækja og rafmagnsbíla, svo eitthvað sé nefnt, hafa átt í verulegum erfiðleikum með að finna nýja seljendur sjaldgæfra málma.


Tengdar fréttir

Óttast áhrif orðræðu Trumps á fjárfesta

Námumálaráðherra Grænlands segir að orðræða Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um kaup eða yfirtöku á Grænlandi gæti haft hræðileg áhrif á fjárfestingar á Grænlandi. Naaja Nathanielsen segir Trump geta skaðað ímynd Grænlands sem stöðugt og auðlindaríkt lýðræðisríki.

Af hverju langar Trump í Grænland?

Donald Trump, sem tekur aftur við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar, hefur ítrekað talað fyrir því undanfarnar vikur að Bandaríkin „eignist“ Grænland. Landið gæti reynst stórveldinu Bandaríkjunum stór fengur í samkeppninni við Kína og Rússland en líklegt er að Trump sækist hvað mest eftir svokölluðum sjaldgæfum málmum.

Loka á aðgengi Bandaríkjamanna að mikilvægum málmum

Yfirvöld í Kína tilkynntu í dag bann við útflutningi nokkurra tegunda svokallaðra „sjaldgæfra málma“ til Bandaríkjanna. Það er í kjölfar þess að ríkisstjórn Joes Biden tilkynnti aðgerðir til að sporna gegn aðgengi Kínverja af mikilvægri tækni frá Bandaríkjunum.

Heimsveldin og auðlindir Grænlands

Lantan, gadólín og dysprósín eru málmar sem líklegast fæstir kannast við en koma sífellt meira að okkar daglegu lífum. Líkur eru á því að akkúrat núna megi finna þessa málma, og aðra, einungis sentímetra frá andliti þínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×