Innlent

Aldrei færri á móti olíu­leit vegna náttúru­verndar­sjónar­miða

Kjartan Kjartansson skrifar
Bruni á olíu og öðru jarðefnaeldsneyti er meginorsök þeirrar hnattrænu hlýnunar sem á sér nú stað á jörðinni.
Bruni á olíu og öðru jarðefnaeldsneyti er meginorsök þeirrar hnattrænu hlýnunar sem á sér nú stað á jörðinni. Vísir/Getty

Hlutfall þeirra sem segja að alls ekki ætti að leita að olíu í íslenskri lögsögu hefur aldrei mælst lægra frá því að byrjað var að kanna það fyrir rúmum áratug. Ríflega helmingur svarenda í skoðanakönnun er jákvæður gagnvart olíuleit við Ísland.

Aðeins þriðjungur svarenda í könnun Gallup segjast sammála því að alls ekki ætti að leita að olíu á íslenska landgrunninu vegna náttúruverndarsjónarmiða. Hlutfallið hefur ekki mælst lægra frá því að byrjað var að leggja spurninguna fyrir árið 2014. Tveir af hverjum þremur segjast frekar eða mjög ósammála því sjónarmiði.

Bruni á jarðefnaeldsneyti er meginorsök þeirra loftslagsbreytinga sem menn valda nú á jörðinni. Ætli mannkynið að ná markmiðum sínum um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 gráður á þessari öld verður það að skilja ónýttar olíu- og gaslindir eftir í jörðu.

Rúmlega 55 prósent svarenda í könnuninni segjast jákvæð gagnvart því að leita að olíu við Ísland en aðeins rúmur fjórðungur neikvæður, þar af aðeins tólf prósent mjög eða að öllu leyti neikvæð.

Karlar eru jákvæðari í garð olíuleitar en konur. Kjósendur Miðflokksins eru jákvæðari en stuðningsmenn annarra flokka. Afgerandi meirihluti kjósenda þeirra, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins er jákvæður en innan við helmingur kjósenda annarra flokka á þingi. Samfylkingarfólk er neikvæðast í garð olíuleitar. Innan við þriðjungur þess tekur jákvætt í leitina en 44 prósent neikvætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×