Upp­gjörið: Kefla­vík - Stjarnan 92-71| Meistararnir teknir til slátrunar

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Jaka Brodnik var öflugur fyrir Keflavík í kvöld.
Jaka Brodnik var öflugur fyrir Keflavík í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Keflvíkingar sýndu styrk sinn á báðum endum vallarins í 21 stigs stórsigri á Íslandsmeisturum Stjörnunnar, 92-71, í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld.

Darryl Morsell skoraði 21 stig fyrir Keflavík og Jaka Brodnik var með 18 stig. Það voru margir að spila vel hjá Keflavíkurliðinu og þar á meðal hinn ungi Ólafur Björn Gunnlaugsson

Stjörnumenn tefldu nú Seth Le Day í fyrsta sinn en það dugði skammt. Garðbæingar gáfu mikið eftir í seinni hálfleik og töpuðu á endanum stórt. Tvö töp í fyrstu þremur leikjunum er staðreynd fyrir meistarana. Orri Gunnarsson var stigahæstur með 22 stig.

Heimamenn byrjuðu af krafti og settu fyrstu níu stig leiksins áður en Stjarnan náði loks að komast á blað. Það var stemning með Keflavíkurliðinu í byrjun en Stjarnan gerði frábærlega að vinna sig inn í jafnan leik og náði forystu eftir fyrsta leikhluta 21-23.

Baráttan var mikil í öðrum leikhluta og liðin voru hnífjöfn. Um miðbik leikhlutans stelur Jaka Brodnik boltanum þegar Stjörnumenn eru í sókn og Baldur Þór þjálfari Stjörnunnar vildi fá villu og lét dómarana alveg vita af því og fékk tæknivillu. Þetta kveikti eitthvað bál með heimamönnum og þeir fengu allt húsið mér sér í stemningu.

Keflavík náði ellefu stiga forystu og voru með húsið algjörlega með sér. Þegar liðin gengu til hálfleiks var staðan 48-39 Keflavík í vil.

Það var ekki alveg sama stemning sem fylgdi Keflavíkurliðinu út úr hálfleiknum og Stjarnan náði góðum kafla og kom þessu í jafnan leik um miðbik leikhlutans. Keflavík náði að kveikja upp smá stemningu aftur og hún skilaði góðu rönni og það voru Keflvíkingar sem leiddu eftir þriðja leikhluta 66-58.

Keflavík byrjaði fjórða leikhluta betur og náði sér í gott forskot. Það forskot lét Keflavík aldrei af hendi og sigldi á endanum nokkuð öruggum sigri heim gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar 92-71.

Atvik leiksins

Keflavík fékk stúkuna með sér í öðrum leikhluta og um miðbik þriðja leikhluta aftur sem gaf þeim þann kraft sem þurfti til þess að vinna Íslandsmeistarana hér í kvöld.

Stjörnur og skúrkar

Darryl Morsell var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 21 stig og var mjög góður í kvöld. Ég var líka mjög hrifinn af Jaka Brodnik, Ólafi Birni Gunnlaugssyni og Craig Moller í liði Keflavíkur í kvöld.

Hjá Stjörnunni var Orri Gunnarsson atvkvæðamestur með 22 stig.

Dómararnir

Dómararnir í kvöld voru Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Jakob Árni Ísleifsson.

Skiptar skoðanir með frammistöðu teymisins en heilt yfir fannst mér þeir skila bara nokkuð góðu verki hér í kvöld. 

Stemingin og umgjörð

Það var stórkostleg stemning hérna í Blue höllinni í kvöld og það var ótrúlegt að sjá hversu mikið það gaf heimamönnum. Umgjörðin í Keflavík er svo alltaf til fyrirmyndar, enda mikill körfuboltabær.

Viðtöl

Daníel Guðmundsson Keflavík

„Eitthvað sem að við verðum að halda áfram að byggja á“

„Það er alltaf rosalega gott að vinna körfuboltaleiki og sérstaklega eftir svona slaka frammistöðu í síðustu umferð þá var þetta alveg kærkomið“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Stjarnan er hörku gott lið og við gerðum þeim erfitt fyrir og stóðum okkur vel varnarlega sérstaklega“

„Smá ströggl sóknarlega á tímum en svo kom það bara þegar við áttuðum okkur á því hvað við ættum að gera en að sama skapi þá eru þeir með nýjan leikmann og það getur riðlað leik liðsins og þess háttar“

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna hjá strákunum í dag og þetta er eitthvað sem að við verðum að halda áfram að byggja á“ sagði Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Keflavíkur. 

Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Anton Brink

„Við þurfum að vera betri en þetta á öllum sviðum“

„Ég er mjög ósáttur með liðið mitt“ sagði svekktur Baldur Þór Ragnarsson eftir tapið í kvöld.

„Mér finnst við spila hérna í byrjun seinni hálfleiks en annars erum við bara ekki með og 24 tapaðir boltar segja bara mikið meira en margt“

Það var gríðarleg stemning í Blue höllinni í kvöld og það var orka sem Stjarnan náði ekki að jafna. 

„Við jöfnuðum í sjálfu sér ekki neit hérna í dag. Við þurfum að vera betri en þetta á öllum sviðum. Þetta var bara alls ekki gott og við þurfum að fara vinna vel í okkar málum“ sagði svekktur þjálfari Stjörnunnar, Baldur Þór Ragnarsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira