Innlent

Falsað mynd­band af kennara og nemanda fór í dreifingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víðistaðaskóli í Hafnarfirði er fyrir nemendur í fyrsta til tíunda bekk. Nemandi á unglingastigi baðst afsökunar á uppátækinu.
Víðistaðaskóli í Hafnarfirði er fyrir nemendur í fyrsta til tíunda bekk. Nemandi á unglingastigi baðst afsökunar á uppátækinu. Vísir/Vilhelm

Gervigreindarmyndband af kennara og nemanda í Víðistaðaskóla í sleik fór í dreifingu meðal nemenda við skólann. Nemandi á unglingastigi stóð á bak við myndbandið. Persónuvernd segir það að líkja eftir fólki með notkun gervigreindar geta falið í sér brot gegn persónuverndarlögum eða öðrum lögum svo sem um ærumeiðingar.

RÚV greindi frá málinu í Víðisstaðaskóla í dag en myndbandið fór í dreifingu í síðustu viku. Dagný Kristinsdóttir skólastjóri var föst á fundi þegar fréttastofa hafði samband en segir í samtali við RÚV að um hafi verið að ræða brandara sem hafi farið úr böndunum.

Skólastjórnendur hafi ákveðið að leysa málið innanhúss, rætt málin við nemendur og upplýst foreldra um málið. Rætt hafi verið við nemandann sem gerði myndbandið og foreldra hans. Hann hafi beðist afsökunar á hegðun sinni.

„Við lukum þessu með foreldrum að sinni. Þetta er í fyrsta sinn sem við tökumst á við svona og erum bara að reyna að átta okkur á því hvernig við eigum að stíga niður fæti í svona málum,“ segir Dagný.

Vandamál tengd gervigreind koma reglulega upp

Um er að ræða enn eitt nýlegt vandamálið þar sem gervigreind er notuð með skaðlegum hætti. Í gær var sagt frá svikahröppum sem hlaða upp gervigreindarlögum í nafni vinsælla íslenskra hljómsveita í von um að geta grætt á þeim.

Vandamálið er eðlilega ekki bundin við landamæri og biðlaði dóttir Robin Williams heitins til fólks á dögunum að hætta að senda henni gervigreindarmyndbönd af föður hennar heitnum.

Helga Sigríður Þórhallsdóttir er staðgengill forstjóra Persónuverndar. Hún segir ábendingar og fyrirspurnir hafa borist Persónuvernd vegna notkunar gervigreindar en engar kvartanir enn sem komið er.

Álitamálin ekki síður siðferðisleg en lagaleg

„Persónuverndarlögin eru tæknilega hlutlaus þannig að þau gilda um persónuupplýsingar í gervigreindarforritum eins og annars staðar. Það að líkja eftir fólki með notkun gervigreindar getur falið í sér brot gegn persónuverndarreglum en svo geta líka aðrar reglur komið til skoðunar til dæmis um ærumeiðingar,“ segir Helga Sigríður.

„Tæknin hefur þróast mjög hratt og að skapa lagaumgjörð sem nær yfir öll þessi álitaefni er ekki einfalt verkefni. Sú löggjöf sem er á leiðinni frá Evrópu fjallar meira um kerfin sjálf en svo þegar kemur að þeim sem nota kerfin þá eru álitamálin kannski ekkert síður siðferðisleg en lagaleg.“

Helga Sigríður segir Persónuvernd hafa lagt áherslu á hve mikilvægt það sé að huga að meðferð gagna og öryggi í þessum nýja umhverfi.

„Gervigreindin getur verið mjög gagnleg þegar hún er notuð rétt en það er líka auðvelt að misnota hana þannig að það brjóti gegn réttindum annarra. Það getur bæði verið gert viljandi eða óviljandi. Þess vegna þarf fólk að vera meðvituð um hvaða upplýsingar eru settar inn í forritin og hvernig þau eru notuð. Þau henta í sumt en ekki allt.“

Mannorð kennara í hættu

Dagný skólastjóri segir nemendur og kennara við Víðistaðaskóla miður sín yfir atvikinu sem kemur upp í framhaldi af umræðu um ofbeldi sem kennarar verða fyrir í starfi sínu. 

Hún nefnir að kennarar geti fundið fyrir óöryggi í starfi enda geti myndefni á borð við þetta verið mannorðsspillandi ef ekki er augljóst að myndefnið sé falsað. Til skoðunar sé að breyta skólareglum til að bregðast við nýjum heimi með tilkomu gervigreindar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×