Upp­gjörið: Ís­land - Norður-Írland 3-0 | Á­fram hluti af elítunni

Sindri Sverrisson og Kári Mímisson skrifa
Hlín Eiríksdóttir fagnaði vel eftir að hafa komið Íslandi í 2-0 með frábærum skalla.
Hlín Eiríksdóttir fagnaði vel eftir að hafa komið Íslandi í 2-0 með frábærum skalla. vísir/Anton

Líkt og frá stofnun Þjóðadeildar kvenna í fótbolta verður Ísland áfram í hópi sextán bestu landsliða Evrópu, í A-deild, á næsta ári þegar leikin verður undankeppni HM í Brasilíu. Ísland valtaði yfir Norður-Írland í umspilseinvígi þjóðanna.

Stelpurnar okkar voru í góðri stöðu eftir 2-0 útisigur á föstudaginn og eftir að hafa þurft að bíða sólarhring lengur en ella, vegna veðurs, fögnuðu þær 3-0 sigri á Þróttarvelli í dag.

Sveindís Jane Jónsdóttir kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik bætti Hlín Eiríksdóttir við skallamarki og Emilía Kiær Ásgeirsdóttir skoraði svo sitt fyrsta landsliðsmark úr vítaspyrnu sem Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, besti maður vallarins í dag, nældi í.

Stelpurnar okkar fagna fyrsta markinu gegn Norður-Írum í dag.vísir/Anton

Dregið á þriðjudaginn

Það ræðst næsta þriðjudag hverjum af bestu þjóðum Evrópu Ísland verður með í riðli á næsta ári, í undankeppni HM. Það að Ísland skuli vera í A-deild í undankeppninni veitir liðinu ekki bara áfram leiki við bestu liðin heldur er það óhemju mikilvægt upp á möguleikann á að spila á HM í Brasilíu sumarið 2027.

Nú getur liðið komist beint á HM með því að vinna sinn riðil á næsta ári en er annars öruggt um að komast í umspil sem mögulegt er að verði ekki gegn neinu af bestu liðunum.

Glódís Perla Viggósdóttir með skalla. Hún lék aðeins fyrri hálfleikinn í dag eftir að hafa verið að stýra álaginu í haust vegna meiðsla.vísir/Anton

Gleymum ekki að Ísland er í þessari stöðu eftir að hafa náð að enda fyrir ofan Sviss í riðlakeppni Þjóðadeildarinnar í vor. Það var ákaflega dýrmætt. Þó að þær svissnesku hafi unnið Ísland á EM í sumar þá eru það þær og Norður-Írar sem þurfa að spila í B-deildinni á næsta ári. Ekki stelpurnar okkar.

Nýttu sér heppnina með drátt

Það var vissulega hálfur sigur unninn þegar Ísland dróst gegn Norður-Írlandi í umspilinu. Mótherjinn hefði getað orðið Írland, sem svo felldi Belgana hennar Elísabetar Gunnarsdóttur, Tékkland eða þá Finnland sem Ísland tapaði fyrir á EM. Norður-Írland var lakasta liðið í boði.

Það sást bersýnilega í fyrri leiknum og aftur í dag. Margir hefðu kannski haldið að Norður-Írar myndu blása til sóknar og freista þess að vinna upp forskot Íslands en getan til þess er einfaldlega ekki til staðar. Gestirnir nálguðust leikinn í dag alveg eins og þann fyrri, héldu sig aftarlega og virtust í raun sáttar við að staðan héldist 2-0 í einvíginu sem lengst.

Íslenska liðið fór sér í engu óðslega en skapaði sér samt fín færi og komst yfir þegar Sveindís skoraði af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Hlínar, eftir hálftíma leik.

Alexandra Jóhannsdóttir með augun á boltanum.vísir/Anton

Það reyndi voðalega lítið á íslensku vörnina og í hálfleik var Glódísi Perlu fyrirliða skipt af velli. Það hefði eflaust ekki gerst nema af því að staðan var orðin afar þægileg.

Sautján ára nýliði og nýr markaskorari

Í kjölfarið kom reyndar langbesta færi gestanna en Cecilía Rán Rúnarsdóttir bjargaði því.

Hlín skoraði svo eftir langt innkast Sveindísar og skalla Hildar Antonsdóttur, á 58. mínútu, og þá gátu frostbitnir 421 áhorfendur í stúkunni endanlega byrjað að fagna áframhaldandi veru í A-deildinni.

Sveindís Jane Jónsdóttir sátt eftir að hafa komið Íslandi yfir í leiknum.vísir/Anton

Varamenn fengu að láta ljós sitt skína þegar leið á seinni hálfleikinn og ein af þeim, Emilía Kiær Ásgeirsdóttir, skoraði úr vítinu sem Karólína fékk á 73. mínútu. Tíu mínútum síðar kom svo hin 17 ára Thelma Karen Pálmadóttir inn á í sínum fyrsta landsleik og var vel fagnað.

Afar fagmannlega afgreitt einvígi en auðvitað ber að hafa í huga að mótspyrnan var nánast engin og gaman hefði verið að sjá Ísland nýta það til að skora fleiri en eitt mark úr opnum leik. En eftir 5-0 sigur er ekki hægt að kvarta og Íslands bíður núna afar spennandi ár 2026 sem gæti svo leitt af sér sólarsamba í Brasilíu sumarið 2027.

Atvik leiksins

Þegar Cecilía kom til bjargar í upphafi seinni hálfleiks, eftir mistök í vörn Íslands, og fórnaði sér algjörlega til að grípa boltann af tám framherja gestanna. Þarna var Glódís fyrirliði farin af velli og mögulega tímapunktur þar sem einhver smáskjálfti hefði getað myndast hjá Íslandi, sem og sjálfstraustneisti hjá Norður-Írum, og kærkomið að Cecilía skyldi koma í veg fyrir það.

Stjörnur og skúrkar

Karólína Lea var frábær í leiknum og veitti viðstöddum nauðsynlega hlýju með sínum skemmtilegu töktum. Fiskaði líka víti. Sveindís og Hlín eiga stærsta heiðurinn að fyrstu tveimur mörkunum. Aftar á vellinum reyndi bara svo lítið á leikmenn að það er erfiðara að hrósa þeim.

Enginn skúrkur á vellinum að þessu sinni, að minnsta kosti ekki í íslenska liðinu, en Arna Eiríksdóttir daðraði vissulega við þá hugmynd með slæmri sendingu úr vörninni í upphafi seinni hálfleiks. Þá saknar maður þess að fá ekki mark frá markamaskínunni Söndru Maríu Jessen og hún fékk alveg færi til að skora í dag.

Dómarinn

Lítið eða ekkert um erfið atvik í þessum leik fyrir dómarana sem gættu þess að halda uppbótartíma í lágmarki í kuldanum, og drifu sig í innanundirföt í hálfleik! Katalin Kulcsár frá Ungverjalandi var með flautuna og hafði ungverska og ítalska aðstoðarmenn. Engin myndbandsdómgæsla var í umspilinu.

Stemning og umgjörð

Það er ekki hægt annað en að hrósa þessum sönnu stuðningsmönnum sem mættu á Þróttarvöll í kvöld, í fimbulkulda, í stað þess að kúra sig undir teppi uppi í sófa. Þeir voru 421 talsins. Það hefur svo sem oft heyrst meira en þó var nokkuð um stuðningshróp og gleðin við völd. Ákveðið þrekvirki að þessi leikur skyldi fara fram en við sem þjóð getum hins vegar vissulega skammast okkar fyrir að bjóða ekki upp á betri aðstöðu fyrir mikilvægan landsleik, þar sem til dæmis var varla hægt að taka langt innkast fyrir snjósköflum og lyftara fyrir sjónvarpsvél.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira