Viðskipti innlent

Alvotech tekur dýfu eftir upp­gjör

Árni Sæberg skrifar
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech.
Róbert Wessmann, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. Vísir/Vilhelm

Gengi hlutabréfa í Alvotech lækkaði um tæplega tíu prósent í fyrstu viðskiptum eftir að félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í gærkvöldi. Það sem af er degi hefur gengið lægst farið í 634 krónur, sem er það lægsta frá upphafi. 

Alvotech tilkynnti í gær að tekjur félagsins hefðu aukist milli ára og að stjórnendur hyggðust nýta sér nýja veltufjármögnun upp á 100 milljónir bandaríkjadala, jafngildi um 12,7 milljarða króna, til að fjármagna áframhaldandi rekstur. Félagið hefði átt 43 milljónir dala í lausu fé í lok september. Rannsóknar-, þróunar- og stjórnunarkostnaður einn og sér hefði numið um 216 milljónum dala á fyrstu níu mánuðum ársins.

Bandaríska lyfjaeftirlitið hafnaði nýverið umsókn Alvotech um markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir nýja hliðstæðu við gigtarlyfið Simponi á grundvelli athugasemda sem gerðar voru við aðstöðu fyrirtækisins. Gengi hlutabréfa í Alvotech hrundi í kjölfarið en forstjóri þess segir það forgangsmál að bregðast við athugasemdum lyfjaeftirlitsins.

Eftir að tilkynnt var um höfnun umsóknarinnar fór gengi bréfa félagsins lægst niður í 636 krónur á hlut en hafði þangað til í morgun verið að rétta lítillega úr kútnum. Í lok dags í gær stóð gengið í 716 krónum. Í fyrstu viðskiptum í gær gengu bréf félagsins kaupum og sölum á 650 krónur en í einum viðskiptum fór gengið niður í 634 krónur. Þegar fréttin er skrifuð stendur gengið í 648 krónum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×