Körfubolti

Meistararnir stungu af í seinni

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Gunnarsson var öflugur í kvöld.
Orri Gunnarsson var öflugur í kvöld. Vísir/Diego

Eftir jafnan fyrri hálfleik áttu Íslandsmeistarar Stjörnunnar ekki í vandræðum með að leggja nýliða Ármanns að velli í kvöld, í Bónus-deild karla í körfubolta, 114-88.

Gestirnir úr Laugardal voru yfir í hálfleik, 63-61, en Stjarnan var svo fljót að stinga af í þriðja leikhluta sem liðið vann 30-12. Niðurstaðan varð svo 26 stiga sigur.

Ármann er því áfram eina liðið í deildinni sem enn er án sigurs en Stjarnan er nú komin með sex stig, eftir tvo sigra í röð.

Luka Gasic var stigahæstur Stjörnunnar í kvöld með 27 stig, Orri Gunnarsson var með 25 stig og Ægir Þór Steinarsson 22. Ægir gaf auk þess 11 stoðsendingar í leiknum.

Hjá Ármanni var Daniel Love langstigahæstur með 28 stig en Ármenningar voru án Bandaríkjamanns eftir að hafa látið Dibaji Walker fara. Hann hefur nú samið við ÍA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×