Innlent

Óttast að fram­tíð gamla Vesturbæjarins sé í húfi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Árni Björn Helgason og Grímur Hákonarson eru meðal íbúa sem berjast gegn uppbyggingu á horni Holtsgötu og Brekkustígs í vesturbæ Reykjavíkur.
Árni Björn Helgason og Grímur Hákonarson eru meðal íbúa sem berjast gegn uppbyggingu á horni Holtsgötu og Brekkustígs í vesturbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Íbúar við Holtsgötu í vesturbæ Reykjavíkur hafa miklar áhyggjur af fyrirhuguðu niðurrifi tveggja húsa til að byggja stærri fjölbýlishús á reitnum. Framtíð hverfisins sé í húfi. Eigandi húss sem stendur til að rífa segir það mjög illa farið. Borgarfulltrúi blæs á gagnrýni að arkitekt sitji beggja vegna borðsins.

Um er að ræða hornið á Holtsgötu 10-12 og Brekkustíg 16 í 101 Reykjavík og eiga fyrirhugaðar framkvæmdir á reitnum sér nokkuð langa forsögu. Samþykkt var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 8. október og síðar í borgarstjórn 21. október að auglýsa tillögu að nýju deiluskipulagi fyrir lóðirnar sem felur í sér uppbyggingu þriggja blokka með samtals ellefu íbúðum og að húsin sem nú eru á reitnum verði rifin. Tillagan hefur verið í samráðsgátt síðan þann 6. nóvember og verður til 18. desember.

Lengi deilt um sama reit

Á umræddu horni eru nú tvö hús og einn skúr, tvennt að Holtsgötu og eitt að Brekkustíg. Á Holtsgötu 10 stendur nú hús að nafni Sæmundarhlíð sem upphaflega var reist á staðnum sem lítill steinbær 1883. Í skýrslu Borgarsögusafns Reykjavíkur frá 2021 segir að varðveislugildi hússins sé hátt, húsið sé „arftaki“ torfbæjar með sama nafni sem áður hafi staðið á lóðinni og tilheyri timburhúsabyggð sem reis í Vesturbænum í upphafi 20. aldar.

Húsið hefur verið kennt við Sæmundarhlíð og er á horninu við Holtsveg og Brekkustíg.Vísir/Vilhelm

Fram kemur hinsvegar í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs að leyfi hafi fengist hjá Húsafriðunarnefnd Minjastofnunar til þess að rífa húsið árið 2006 og segir orðrétt í bréfi frá 20. júní 2006 sem undirritað var af byggingarfulltrúanum í Reykjavík:

„Varðveislugildi hússins frá sjónarmiði byggingarlistar, menningarsögu og umhverfis er lágt auk þess er húseignin, samkvæmt framanlögðum gögnum, undirlögð af veggjatítlum og fúa.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjallað hefur verið um tillögurnar á reitnum. DV greindi frá því í nóvember í fyrra að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál hefði fellt úr gildi fyrri ákvörðun borgarstjórnar um að samþykkja þar nýtt deiluskipulag. „Í ljósi framangreindra krafna aðalskipulags um eldri byggingar, líkt og um ræðir í þessu tilviki, verður ekki séð að sett hafi verið fram sterk rök um hvernig hin nýja byggð samræmist markmiðum borgarverndarstefnu.“

Húsið ónýtt um árabil

Páll Kristján Svansson er eigandi hússins þar sem sonur hans býr ásamt fjölskyldu sinni. Hann segir í samtali við Vísi að hann hafi keypt það fyrir um tuttugu árum, þegar það hafi þá þegar verið dæmt ónýtt. Hann segist alltaf hafa haft metnað til þess að gera vel við húsið en burðarvirkið sé ónýtt og húsið auk þess fullt af veggjatítlu.

„En við höfum alltaf haft metnað til þess að halda því vel við utan frá, þó það sé að grotna niður burðarvirkið. Það er okkar metnaður að hafa þetta fallegt á meðan þetta er þarna. Við vissum það alveg að það gæti orðið að vandamáli að gera það svoleiðis vegna þess að menn hafa haldið að það væri allt í lagi með það. Við gátum bara ekki hugsað okkur hvorki fyrir okkur né nágranna að horfa upp á það grotna eins og svo algengt er.“

Hann segir að með nýju húsi sem komi í staðinn verði borin virðing fyrir núverandi hverfi, skuggavarp verði ekki meira en af blokk sem sé beint á móti í götunni, að Holtsgötu 13. „Okkar metnaður er enginn annar en að viðhalda Vesturbænum. Þarna er verið að loka ramma á þessu horni sem hefur verið á áætlun hjá borginni um árabil.“

Páll bendir á að skuggavarp af nýjum húsum verði ekki meira en það sem þegar sé til staðar af blokkinni með græna þakinu.Vísir/Vilhelm

Tillagan tekið breytingum

Í kynningarefni umhverfis- og skipulagsráðs má sjá mynd af þróun tillögunnar að þremur blokkum á horninu. Fyrst var lögð fram tillaga um fjölbýlishús árið 2014 en tillagan tekið breytingum síðan líkt og sjá má á skýringarmynd. Minnisblað verkfræðistofunnar Eflu var lagt fram ásamt kynningarefninu en það er frá 2022, þá var gert ráð fyrir að húsin yrðu fimmtán íbúða. Í núverandi tillögu eru þær ellefu og verða húsin fjórar hæðir.

Úr kynningarefni í umhverfis- og skipulagsráði.

Í minnisblaði Eflu segir að engin bílastæði muni fylgja en aðgengi að almenningssamgöngum sé mjög gott og lögð verði áhersla á bíllausan lífsstíl við reitinn. Miðað við útreikninga væri bílastæðaþörf um ellefu bílastæði en þá hafi ekki verið tekið tillit til aðgerða til þess að styðja við færri bílastæði og breyttar ferðavenjur, semsagt tækifæri til samnýtingar, blöndun byggða og fækkunar vegna góðsa gengis að almenningssamgöngum. Vegna staðsetningar séu ferðir í helstu verslun og þjónustu stuttar og atvinnutækifæri í nærumhverfi mikil.

Margþættar áhyggjur

Árni Björn Helgason og Grímur Hákonarson eru meðal þeirra íbúa á Holtsgötu sem hafa miklar áhyggjur af fyrirætlunum borgarinnar um uppbyggingu á reitnum. Þeir segjast frekar myndu vilja sjá eigendur gera húsið upp og að götumyndinni yrði haldið óbreyttri. Málið snúist um hverfisbrag Vesturbæjar og óttast íbúar að nái uppbyggingin fram að ganga verði hún fordæmisgefandi og fleiri reitir opnaðir fyrir sambærilegri uppbyggingu.

Árni og Grímur eru meðal íbúa sem hafa áhyggjur af uppbyggingunni. Vísir/Vilhelm

Árni hefur meðal annars skrifað umsögn vegna málsins í skipulagsgátt. Þar segir hann meðal annars að ný tillaga um deiluskipulag sé í meginatriðum hin sama og úrskurðarnefnd hafi fellt úr gildi í fyrra. Fækkun íbúða úr fimmtán í ellefu hafi ekki áhrif á mat nefndarinnar um að byggingarmagn á svæðinu sé of mikið, uppbyggingin sé brot gegn aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 og taki ekki tillit til sérkenna gamla Vesturbæjarins auk þess sem Árni segir umsögn Húsafriðunarnefndar Minjastofnunar frá 2006 úrelta.

„Það er nákvæmlega það sama að gerast núna og þetta er bara deja vu, þeir eru basically að koma með sömu tillögu aftur og að reyna að koma þessu í gegn nú þegar það er desember. Þetta er fjórum íbúðum minna en í síðustu tillögu en byggingarflöturinn er meira og minna sá sami,“ segir Árni. Hann segir áhyggjur íbúa margþættar.

„Það er skuggavarpið, það er byggingarmagnið og vanþörfin á þessu. Það eru tómar íbúðir í þessum gímöldum sem er búið að byggja hérna beint fyrir framan JL húsið og svo hjá hótelinu, á Héðinsreitnum. Það er engin sérstök ástæða til að gera þetta og lausar íbúðir hér í hrönnum.“

Hann segir íbúa hafa miklar áhyggjur af þeim aðstæðum sem skapist í hverfinu á meðan framkvæmdum við ný hús standa. Þær geti tekið tvö ár með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa.

„Það eru einbreiðar götur hérna í þessu litla hverfi, klöpp hér fyrir neðan og tilheyrandi hávaði sem mun fylgja því að bora og sprengja ofan í hana sem margir hafa áhyggjur af. Ef þú ætlar að koma fyrir iðnaðarvélum til að byggja ellefu íbúða blokk þá þarf að loka götum hér í tvö ár á meðan byggingu stendur.“

Hann segir að auk þess sé bílastæðaskortur þegar verulegur í hverfinu. Götur séu fullnýttar og hverfið eitt það þéttasta á Íslandi. „Á sama tíma er vísað í samgöngumat Eflu frá 2022 sem byggir á væntingum um vistvænar ferðavenjur sem hafa ekki orðið að veruleika. Það er því óraunhæft og óábyrgt að réttlæta þessa uppbyggingu með forsendum sem ekki standast daglegt líf íbúa á svæðinu. Þétting án raunhæfrar stæðalausnar leiðir óhjákvæmilega til enn meiri umferðarþrýstings, truflunar og skerðingar á lífsgæðum í hverfinu.“

Árni segir íbúa hafa áhyggjur af byggingarmagni og tilheyrandi umferð.Vísir/Vilhelm

Eigendur segja að húsið sé ónýtt, er ekki skiljanlegt að þeir vilji losa sig við það?

„Jú það væri það ef það væri vandamálið. Það er ekki búið að dæma húsið ónýtt, það er bara búið að segja að þeir ætli ekki að setja sig upp á móti rifnum húsum því það svarar ekki kostnaði að laga húsið, svona menningararf. Húsið er ekki ónýtt því það er búið að vera í útleigu síðustu tuttugu ár. Þeir ættu að fara í endurmat á húsinu, ekki nýta tuttugu ára gamalt plagg til þess að segja að húsið sé ónýtt. Borgin er ekki að vinna fyrir borgarana, heldur einn ríkisbubba.“

Hafa áhyggjur af hæfi varaborgarfulltrúa

Þá lýsa íbúar yfir miklum áhyggjum af aðkomu arkitektsins Birkis Ingibjartssonar að málinu. Birkir er arkitekt á vegum TÓ arkitekta en einnig varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og er varafulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði. Samkvæmt því sem fréttastofa kemst næst var tillagan unnin árið 2019, en Birkir varð varaborgarfulltrúi 2022.

Birkir Ingibjartsson arkitekt er varafulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði. Vísir/Vilhelm

Árni segir að sér þyki ljóst að Birkir sitji beggja vegna borðsins í málinu. Hann sé hagsmunaaðili framkvæmdanna og um leið hluti af stjórnsýslunni sem eigi að meta þær og samþykkja.

„Hann situr beggja vegna borðsins. Það er enginn vafi. Ég er ekki í neinum vafa um það að þetta er allt löglegt. Hann víkur þegar þarf að greiða atkvæði um þetta en engu að síður er þetta bullandi siðlaust,“ segir Árni.

Líf Magneudóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs vildi ekki veita Vísi viðtal vegna málsins. Hún tók við embættinu í byrjun nóvember af Dóru Björt Guðjónsdóttur sem nú er orðin formaður borgarráðs.

Dóra Björt segir í skriflegu svari til Vísis að það sé af og frá að Birkir hafi haft áhrif á málið. Hann hafi aldrei komið að afgreiðslu málsins, sem að hennar sögn hafi tafist mikið, verið lagað og hrært verulega í. Það hafi ekki verið tekið neinum vettlingatökum, heldur þvert á móti.

Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður borgarráðs segir ekki rétt að Birkir hafi átt aðkomu að málinu.Vísir/Vilhelm



Fleiri fréttir

Sjá meira


×