Skoðun

Sanna sundrar vinstrinu

Guðbergur Egill Eyjólfsson skrifar

Það hafa átt sér stað viðræður um samstarf milli “vinstri” flokkanna í borginni. Sósíalistaflokksins, VG og Pítata. Sönnu Magdalenu var boðið á fundinn en mætti ekki. Að vinstrið sameinist er ekki meginmarkmiðið. Markmiðið er að ”vinstrið” sameinist Sönnu. Sanna vill endurheimta þann sess sem hún hafði undir Sósíalistaflokknum ehf, sósíalistaflokknum hans Gunnars Smára. Þar sat hún í hásæti pólitísks leiðtoga með Gunnar Smára sér við hlið, hvíslandi ráð í eyra og hún vill meira.

Sanna Magdalena Mörtudóttir er með miklar yfirlýsingar að ætla að sameina vinstrið en er sjálf nýbúin að kljúfa Sósíalistaflokkinn. Eina alvöru vinstri flokkinn á Íslandi. Á síðasta aðalfundi var hún kosin þar til forystu en fannst það ekki nóg þar sem nýsamþykkt lög skertu vald hennar innan flokksins. Lögum var breytt á þann veg að nú þyrfti hún að deila völdum með flokksfélögum sínum. Ófyrirgefanlegt athæfi. Aðferð Sönnu er: ” my way or the highway.”

Málefnaágreningur þessa litla klofningsbrots úr Sósíalistaflokknum við aðra flokksmenn var enginn. Alls enginn. Þetta snýst engöngu um völd. Völd til að dæla tugmilljóna ríkisstyrk Sósíalistaflokksins í Samstöðina, sjónvarpsstöð Gunnars Smára Egilssonar. Og vinstrið sem Sönnu þykir svo vænt um mun ekki fá krónu af þeim styrk. Ekkert frekar en þegar hún fór með völd í Sósíalistaflokknum.

Það er ekkert nýtt að stjórnmálamenn kljúfi sig frá flokkum og stofni til nýrra framboða. Það gerist yfirleitt með pompi og prakt þegar þeir segja sig úr sínum gamla flokki. En hefur Sanna Magdalena gert það? Nei. Hún er enn í Sósíalistaflokknum þótt hún sé búin að stofna til framboðs honum til höfuðs. Sanna er enn í lokuðu spjalli sósíalista þar sem þeir ræða innri málefni flokksins og neitar að fara. Skrýtið? já en siðferðið rýs ekki hærra en þetta.

Ég óska þeim velfarnaðar sem treysta sér í samstarf með Sönnu og hvíslara hennar.

Höfundur er stjórnarmaður í framkvæmdarstjórn Sósíalistaflokks Íslands




Skoðun

Sjá meira


×