Lífið

Óskarsverðlaununum streymt á Youtube

Lovísa Arnardóttir skrifar
Anora var valin besta kvikmyndin á Óskarsverðlaununum í ár.
Anora var valin besta kvikmyndin á Óskarsverðlaununum í ár. Vísir/EPA

Óskarsverðlaununum verður streymt á YouTube frá og með 2029. Verðlaunin hafa hingað til verið sýnd á sjónvarpsstöðinni ABC.

Bandaríska kvikmyndaakademían tilkynnti í dag að þau hefðu undirritað margra ára samning um einkarétt á útsendingu Óskarsverðlaunanna á heimsvísu. Samningurinn mun gilda til ársins 2033. Fjallað er um málið á vef CNN.

Þar segir að samningurinn undirstriki gríðarlega valdatilfærslu í fjölmiðlaiðnaði. Hann hafi umturnast vegna streymisveitna og YouTube. ABC, sem er í eigu Disney, hefur verið heimili Óskarsverðlaunanna í áratugi. ABC mun halda áfram að sýna verðlaunaafhendinguna til ársins 2028. ABC sagði í yfirlýsingu eftir að tilkynnt var um flutninginn að þau hlakki til næstu þriggja útsendinga, þar á meðal aldarafmælishátíðarinnar árið 2028.

Í frétt CNN segir að Óskarsakademían hafi síðustu vikur boðið út réttinn að útsendingum til framtíðar og það hafi leitt til vangaveltna um að tæknirisi myndi kaupa réttinn.

„Óskarsverðlaunin eru ein af okkar mikilvægustu menningarstofnunum sem heiðra afburðaárangur í sagnagerð og listsköpun. Samstarf við Akademíuna um að færa þessa hátíð listar og afþreyingar til áhorfenda um allan heim mun hvetja nýja kynslóð til sköpunar og kvikmyndaunnenda á sama tíma og við höldum í sögufræga arfleifð Óskarsins,“ er haft eftir Neal Mohan, forstjóra YouTube, í fréttinni.

„Að YouTube sýni frá Óskarsverðlaununum er eins og að takast í hendur við gaurinn sem er að reyna að drepa þig,“ sagði handritshöfundurinn Daniel Kunka á samfélagsmiðlinum X þegar tilkynningin var gerð.

Í frétt CNN segir að Youtube hafi hvatt kvikmyndagerðarfólk til að gera tilraunir með nýja tækni og dreifa kvikmyndum sínum á nýjan hátt. Óskarsverðlaunin haldi að mestu á lofti kvikmyndum sem hafi farið í sýningu í kvikmyndahúsum, jafnvel þótt margir sjái kvikmyndirnar ekki fyrr en þær koma á streymisveitur.

Kvikmyndin Anora, sem var valin besta kvikmyndin í ár, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes, kom síðan út í kvikmyndahúsum og rataði á streymisveituna Hulu mánuðum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.