Innlent

Við­reisn gæti reynst í lykil­stöðu milli blokkanna

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sveitastjórnarkosningar fara fram þann 16. maí á næsta ári. Fimm mánuðir eru til stefnu og þau sem stefnir á oddvitaframboð eru farin að stíga fram.
Sveitastjórnarkosningar fara fram þann 16. maí á næsta ári. Fimm mánuðir eru til stefnu og þau sem stefnir á oddvitaframboð eru farin að stíga fram. vísir/samsett

Það stefnir í gríðarlega spennandi kosningar í Reykjavík að mati stjórnmálafræðings sem telur að Viðreisn gæti endað í lykilstöðu milli blokkanna til hægri og vinstri. Hann telur óvíst hvort harður oddvitaslagur innan Sjálfstæðisflokksins yrði flokknum til gagns.

Sveitastjórnarkosningar fara fram þann sextánda maí, eða eftir um fimm mánuði. Það stefnir í spennandi kosningar í Reykjavík og það verður í það minnsta kosti einhver endurnýjun í oddvitasætum.

Nýr oddviti verður hið minnsta á lista hjá Viðreisn þar sem Þórdís Lóa Þórhallsdóttir ætlar ekki fram. Þeir Aðalsteinn Leifsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Róbert Ragnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Grindavík, hafa þegar gefið kost á sér. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun Björg Magnúsdóttir, fyrrverandi fjölmiðlakona og aðstoðarkona borgarstjóra, einnig taka slaginn.

Hildur Björnsdóttir er leiðtogi Sjálfstæðismanna í borgarstjórn og ætlar að gefa kost á sér. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, útilokar ekki að hann blandi sér í slaginn.Vísir

Staðan er þó einna mest spennandi innan Sjálfstæðisflokksins. Hildur Björnsdóttir, oddviti, mun gefa kost á sér og Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður flokksins, útilokar ekki að færa sig yfir í borgarmálin. Í nýlegri könnun Maskínu voru þau hnífjöfn þegar spurt var hvern fólk vildi sjá sem næsta borgarstjóra. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er fólk þó tvístígandi innan Valhallar um hvort heppilegt sé að fara í harða prófkjörsbaráttu í stað þess að einblína á kosningarnar.

Ólafur Þ. Harðarson, segir ómögulegt að spá fyrir um hvort slíkt yrði flokknum til gagns.

„Stundum hafa flokkar farið vel út úr því og sýnt lífsmark með hörðum slag en stundum hefur það ekki gefist vel. Aðalmálið fyrir Sjálfstæðisflokkinn er held ég að bjóða fram samhentan lista,“ segir Ólafur.

Heiða Björg Hilmisdóttir, oddviti Samfylkingar og borgarstjóri, ætlar að gefa kost á sér en heyrst hefur það gæti stefnt í baráttu um oddvitasætið.Vísir/Vilhelm

Heiða Björg Hilmisdóttir sækist eftir oddvitasæti Samfylkingar í prófkjöri en samkvæmt heimildum hefur fólk innan flokksins verið að leita til annarra um að fara gegn henni. Meðal annars hafi verið haft samband við Berg Ebba Benediktsson, grínista og rithöfund.

Miðflokkurinn er ekki með borgarfulltrúa og enginn hefur tilkynnt um oddvitaframboð. Hlédís Maren Guðmundsdóttir þykir líkleg en hún hefur verið áberandi í umræðunni um málefni flokksins undanfarið. Nafn Frosta Logasonar, fjölmiðlamanns, hefur einnig verið nefnt en í samtali við fréttastofu segir hann framboð ekki á döfinni.

Þá er enn óvíst hvernig fer með mögulegt sameiginlegt framboð á vinstri væng eða hvort flokkarnir bjóði fram undir eigin merkjum.

Fylgi flokkanna í borgarstjórn samkvæmt síðustu könnun Maskínu sem var gerð í lok nóvember.vísir

Samkvæmt nýlegri könnun Maskínu er meirihlutinn fallinn. Var með samanlegt fjörutíu og fjögur prósent atkvæða og staðan var svipuð í könnun Gallup. Þá eru Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkur með svipað samanlagt fylgi.

„Miðað við þessar kannanir er hvorki gamli meirihlutinn, né þessi mið-hægri meirihluti með meirihluta. Sá sem ræður þarna úrslitum, ef meirihlutamyndun yrði í samræmi við þessar blokkir er Viðreisn, sem var með fimm prósent síðast og er nú að mælast með níu til tólf prósent,“ segir Ólafur.

„Ef myndin er eitthvað í líkingu við það sem þessar kannanir eru að teikna upp getum við búist við mjög spennandi kosningum og ekki síður spennandi meirihlutamyndun, eins og við höfum reyndar oft séð,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×