Skoðun

Reyk­vískir lýðræðis­jafnaðar­menn – kjósum odd­vita

Freyr Snorrason skrifar

Kæra lýðræðisjafnaðarfólk og aðrir sem þetta lesa, gleðileg jól, farsælt komandi ár, höldum áfram að sigra.

Innan Samfylkingar – jafnaðarflokks Íslands í Reykjavík er hefð fyrir því að kosið er um oddvitasætið fyrir sveitarfélagskosningar þegar fyrrum kjörni oddviti býður sig ekki aftur fram.

Dagur B. Eggertsson sem hafði verið kjörinn oddviti síðan 2006, hefur horfið til nýrra og góðra starfa sem þingmaður á Alþingi. Næsti aðili á lista, Heiða Björg Hilmisdóttir núverandi borgarstjóri, steig því upp í stöðu oddvita án þess að vera kjörin í það embætti í flokksvali (prófkjöri) flokksins. Heiða Björg er sem stendur sú eina sem hefur gefið það út opinberlega að hún stefni á fyrsta sætið í flokksvalinu og er það vel.

Mikilvægt er að sá einstaklingur sem mun leiða lista Samfylkingar í borginni gangi frá flokksvalinu með kýrskýrt umboð frá flokksfélögum í Reykjavík, en fái ekki svokallaða krýningu. Þetta snýst ekki síst um hið lýðræðislega ferli og sátt um efstu sætin á lista Samfylkingar í borgarstjórnarkosningum í vor. Sósíaldemókratisminn byggir á þátttöku fjöldans til að skapa jöfn tækifæri og lýðræðislegri ábyrgð á þeim kerfum sem við rekum saman.

Því skora ég á allt gott fólk með jafnaðartaug og borgarstjóradraum í maganum til að bjóða sig fram í 1. sætið. Framboðsfrestur er til hádegis 3. janúar 2026. Vona ég að keppt verði drengilega um oddvitasætið jafnt sem sæti 2–6. Að flokksvali loknu sameinumst við, að hætti stoltra sósíaldemókrata, þétt á bakvið listann í kosningunum í maí og höldum áfram að sigra.

Einnig vil ég árétta að flokksvalið er rétti vettvangurinn fyrir kjósendur Samfylkingar til að hafa áhrif. Þetta er vinsamleg áminning til kjósenda sem ekki eru skráðir í flokkinn og vilja hafa áhrif í flokksvalinu, að skrá sig í flokkinn og taka þátt í þessari lýðræðisveislu.

Höfundur er lýðræðisjafnaðarmaður í Reykjavík og félagi í Samfylkingunni.




Skoðun

Sjá meira


×