Skoðun

Áramótaheitið er að fá leik­skóla­pláss

Ögmundur Ísak Ögmundsson skrifar

Í skemmtilegu jólaboði sem ég fór í yfir hátíðarnar voru til umræðu áramótaheit fólks fyrir nýja árið og voru þar nefnd ýmis misraunhæf markmið og væntingar sem fólk hefur til ársins. Við borðið var fólk á öllum aldri, en þegar röðin kom að ungu pari við borðið sögðu þau samhljóma „Ætli það sé ekki bara að reyna að fá leikskólapláss“. Sorglega staðreyndin er, að af öllum þeim áramótaheitum sem nefnd voru er þetta sennilega það óraunhæfasta af þeim öllum. 

Þetta unga par býr í Reykjavík eins og undirritaður og því minnti þetta áramótaheit mig óneitanlega á tilfinningu sem ég þekki vel og ekki af góðu. Ég og konan mín vorum í nákvæmlega þessum sporum fyrir sjö árum síðan og aftur fyrir þremur árum síðan, að fá ekki leikskólapláss fyrr enn löngu eftir að fæðingarorlof kláraðist með tilheyrandi óvissu og púsluspili. Það á ekki að vera hausverkur foreldra að finna út úr því hvernig skuli brúa bilið. 

Í alltof langan tíma hefur meirihlutanum í Reykjavík ekki tekist að finna lausnir. Síðustu tvö kjörtímabil hef ég fylgst vel með málum hér í borginni og sérstaklega umræðu um leikskólamálin sem sprettur upp reglulega. Þeir sem hafa talað máli foreldra og mótmælt stöðunni eiga þar mikið hrós skilið. Sérstaklega ber að hrósa þeim foreldrum sem hafa staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að vekja athygli á slæmri stöðu mála. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hafa í lengri tíma talað fyrir lausnum til þess að að brúa bilið. Hugmyndir á borð við heimgreiðslur með börnum sem fá ekki pláss á leikskóla að loknu fæðingarorlofi, að greiða götur sjálfstætt starfandi leikskóla og leikskóla á vegum atvinnurekenda eða að líta til nágrannasveitarfélaga varðandi leiðir sem hafa sýnt sig virka til að stytta biðlista hafa ekki fengið hljómgrunn meirihlutans í Reykjavík. 

Staðan er sú að hvert sem litið er í málaflokknum er það alltaf sama sagan. Vandræðagangur Reykjavíkur er mikill og hefur verið það í alltof langan tíma. Í vor gefst okkur tækifæri til þess að söðla um og fá nýjan meirihluta í borginni þar sem von er á raunverulegum breytingum. Gleymum ekki hvaða flokkar hafa setið við stjórnvölinn síðastliðinn áratug og bera ábyrgð á biðlistum og áhyggjufullum foreldrum. Ég ásamt hundruðum annarra foreldra þekkjum vonleysið sem fylgir biðinni eftir plássi á leikskóla hér í Reykjavík og ég óska þess að að ungt fólk fari bráðlega að finna að yfirvöldum í borginni þeirra sé annt um að leysa þennan vanda. 

Höfundur er fjölskyldufaðir, íbúi í Reykjavík og formaður félags Sjálfstæðismanna í Langholtshverfi




Skoðun

Sjá meira


×