Lífið

Plötuverslun snið­gengur Björk og tekur tón­list hennar úr hillum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Danskir stjórnendur plötuverslunar í Óðinsvéum eru allt annað en sáttir við ummælin sem Björk lét falla um Danmörku og Grænland.
Danskir stjórnendur plötuverslunar í Óðinsvéum eru allt annað en sáttir við ummælin sem Björk lét falla um Danmörku og Grænland. Getty/Santiago Felipe

Frá og með deginum í dag verður ekki lengur hægt að kaupa tónlist íslensku tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur í plötuverslun nokkurri í Óðinsvéum í Danmörku. Ástæðan er sú að eigendur verslunarinnar hafa tekið plötur hennar úr hillum vegna ummæla sem söngkonan lét falla um Grænland og Danmörku á samfélagsmiðlum á dögunum. Ekki verður heldur hægt að kaupa tónlist Bjarkar í gegnum vefverslun fyrirtækisins.

Danski fjölmiðillinn TV 2 greinir frá málinu og vísar þar í Facebook-færslu plötuverslunarinnar Record Pusher. „Plötubúð sniðgengur íslenska alheimsstjörnu eftir færslu um Grænland,“ segir í fyrirsögn stuttrar fréttar sem miðillin birti í gærkvöldi.

„Ástæðan eru ummæli hennar um Danmörku og Grænland, sem á engan hátt gerir nokkuð gott fyrir þær aðstæður sem ríkjasambandið er í í augnablikinu. Færsla hennar er efnislega röng, og hún skáldar sinn eigin veruleika líkt og Trump. Þessi færsla stuðlar að vinslitum og hjálpar aðeins skúrkinum hinu meginn við Atlantshafið… vertu blessuð Björk,“ segir í færslu Record Pusher. Með færslunni fylgir skjáskot af Facebook-færslu Bjarkar sem hún birti sjálf fyrr í vikunni.

Í umræddri færslu sem Vísir greindi frá á mánudaginn er Björk nokkuð afdráttarlaus í garð Danmerkur og hvatti Grænlendinga meðal annars til að lýsa yfir sjálfstæði. „Enn í dag eru Danir að kenna Grænlendingum að þeir séu minna virði sem manneskjur,“ skrifaði Björk meðal annars um leið og varaði við því að Grænlendingar færu undan oki „eins ills nýlenduherra til annars.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.