Erlent

Segir Banda­ríkin þurfa að eignast Græn­land, sátt­málar séu ekki nóg

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump fór yfir víðan völl í viðtalinu við New York Times.
Trump fór yfir víðan völl í viðtalinu við New York Times. Getty/Joe Raedle

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir afar mikilvægt að Bandaríkin „eignist“ Grænland og að leigusamningar og sáttmálar séu ekki nóg.

Þetta sagði forsetinn í löngu viðtali við fjóra blaðamenn New York Times á miðvikudaginn, þar sem farið var yfir víðan völl. Trump lét einnig þau orð falla í viðtalinu að það eina sem setti valdi hans mörk væri hans eigin siðferði.

„Ég hef enga þörf fyrir alþjóðalög. Ég er ekki að leitast við að meiða fólk,“ sagði forsetinn. Hann játti því að jú, víst þyrftu stjórnvöld að fara eftir alþjóðalögum en það væri hans að ákveða í hvaða tilfellum slíkt ætti við um Bandaríkin.

„Það veltur á því hvernig þú skilgreinir alþjóðalög,“ sagði hann.

Trump var spurður að því hvort væri mikilvægara, að standa vörð um Atlantshafsbandalagið eða eignast Grænland. Hann svaraði spurningunni ekki beint en viðurkenndi að mögulega stæði valið milli þessa.

Þá kom skýrt fram í svörum forsetans að það væri ekki nóg að Bandaríkjamenn gætu samkvæmt sáttmála milli þeirra og Dana opnað fleiri herstöðvar á Grænlandi og stóraukið mannafla sinn þar, heldur þyrftu þeir að eignast landið.

„Eignarhald er afar mikilvægt,“ sagði Bandaríkjaforseti. „Það er það sem ég tel nauðsynlegt sálfræðilega, til að tryggja velgengni. Ég tel að eignarhald veiti þér það sem þú getur ekki gert þegar um er að ræða leigusamninga eða sáttmála. Eignarhald veitir þér hluti og þætti sem þú færð ekki bara með því að undirrita plagg.“

Þess ber að geta að margir þingmenn vestanhafs, bæði Demókratar og Repúblikanar, hafa lýst mikilli andstöðu við hugmyndir þarlendra stjórnvalda um Grænland. Þeirra á meðal er Mitch McConnell, sem var leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni í nærri tvo áratugi.

McConnell segir í færslu á Facebook að öryggissamvinna Bandaríkjanna, Danmerkur og Grænlands eigi sér sögu sem sé eldri en Atlantshafsbandalagið. Hótanir um yfirráð Bandaríkjanna yfir Grænlandi séu bæði ósmekklegar og ógagnlegar. 

Þá segir hann það myndu valda Bandaríkjunum ómældum skaða að beita valdi til að taka yfir sjálfráða landsvæði undir stjórn eins dyggasta bandamanns Bandaríkjamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×