Enski boltinn

Solskjær hittir for­ráða­menn Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Ole Gunnar Solskjær verður alltaf goðsögn hjá Manchester United eftir feril sinn sem leikmaður. Nú gæti hann verið að taka við liðinu í annað sinn á þjálfaraferlinum.
Ole Gunnar Solskjær verður alltaf goðsögn hjá Manchester United eftir feril sinn sem leikmaður. Nú gæti hann verið að taka við liðinu í annað sinn á þjálfaraferlinum. Getty/Rasid Necati Aslim

Manchester United færist sífellt nær því að ráða nýjan aðalþjálfara til bráðabirgða eftir að Rúben Amorim var rekinn á mánudaginn. Ole Gunnar Solskjær mun hitta forráðamenn félagsins á morgun og funda með þeim.

Enskir fjölmiðlar, þar á meðal BBC, fjalla um þetta og segja að eigendur United rói að því öllum árum að ráða inn nýjan mann tímanlega fyrir Manchester-slaginn sem fram fer í hádeginu á laugardag eftir rúma viku.

Darren Fletcher stýrði United í 2-2 jafnteflinu við Burnley á miðvikudaginn og verður við stjórnvölinn á sunnudag í bikarleiknum gegn Brighton.

Að því loknu gæti Solskjær mögulega tekið við en það er spurning hvort fundurinn á morgun ráði einhverju um það. Samkvæmt BBC hafa forráðamenn United þegar fundað með Michael Carrick og samkvæmt heimildamönnum miðilsins innan félagsins er hugmyndin ekki sú að þeir stýri liðinu saman, þó að þeir hafi starfað saman eftir að Jose Mourinho var rekinn frá United árið 2018.

Ole Gunnar Solskjær og Michael Carrick íbyggnir á svip á þeim tíma sem þeir stýrðu United eftir brottrekstur Jose Mourinho.Getty/Matthew Peters

Þegar Solskjær tók síðast við til bráðabirgða fékk hann langtímasamning í mars 2019, eftir að hafa skilað góðum úrslitum, en var svo rekinn í nóvember 2021. Hann stýrði síðast Besiktas í Tyrklandi en var rekinn þaðan í ágúst eftir töp í umspili um sæti í bæði Evrópudeildinni og svo í Sambandsdeildinni.

Fletcher segist ekki vita hvað taki við

Fletcher sagði fyrr í dag að ekkert hefði verið rætt um hvað tæki við hjá honum eftir bikarleikinn á sunnudaginn. Hann hefur verið þjálfari U18-liðs United og gæti mögulega snúið aftur í það starf.

„Það hefur ekkert verið rætt eða spáð í mína framtíð,“ sagði Fletcher og kvaðst hafa fengið fullt traust til að taka sínar ákvarðanir varðandi leikina tvo sem hann er við stjórnvölinn. BBC segir hann hafa heillað háttsetta menn hjá United með framgöngu sinni í vikunni og því hvernig hann hefur höndlað utanaðkomandi pressuna sem fylgir starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×