Innlent

Slökktu eld í djúpgámi í Kópa­vogi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Aðstoðarvarðstjóri segir slökkvilið hafa náð að slökkva eldinn nokkuð fljótt.
Aðstoðarvarðstjóri segir slökkvilið hafa náð að slökkva eldinn nokkuð fljótt. Vísir/Anton Brink

Einn var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur í gær eða í nótt vegna slagsmála. Fram kemur í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að óskað hafi verið aðstoðar vegna slagsmála og að tilkynnt hafi verið um hnupl í bæði Kópavogi og Hafnarfirði. Slökkvilið slökkti eld í djúpgámi í Kópavogi.

Einnig aðstoðaði lögreglan við umferðaróhapp auk þess sem nokkrir ökumenn voru handteknir vegna gruns um ölvunarakstur víða um höfuðborgarsvæðið og aðrir fyrir umferðarlagabrot.

Þá var einn ökumaður sektaður fyrir að aka próflaus og fyrir óviðunandi frágang og drátt farms. Í dagbók lögreglu kemur fram að hann hafi ekið hefðbundinni skutbifreið með sendibifreið á stórri kerru í eftirdragi.

Í tilkynningu frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins kemur fram að farið hafi verið í 121 sjúkraflutning síðasta sólarhringinn og að dælubílar hafi farið í þrjú útköll.

Eitt var vegna elds í djúpgámi í Kópavogi og annað vegna reyks í húsnæði í miðborginni. Þar höfðu keramikpottar hjá leirlistamönnum ofhitnað og myndað reyk.

„Við slökktum á ofnum og reykræstum,“ segir í tilkynningu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×