Viðskipti erlent

Kín­verjar með lang­mesta viðskiptaafgang sögunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Útflutningur Kínverja hefur aukist til muna á milli ára, þrátt fyrir háa tolla Trumps.
Útflutningur Kínverja hefur aukist til muna á milli ára, þrátt fyrir háa tolla Trumps. AP/Chinatopix

Yfirvöld í Kína opinberuðu í gær að viðskiptaafgangur ríkisins í fyrra var um 150 billjónir króna. Það er langmesti skráði viðskiptaafgangur sögunnar, jafnvel þó tillit sé tekið til verðbólgu, og um tuttugu prósenta aukning frá árinu 2020.

Kína hefur ekki verið með viðskiptahalla frá árinu 1993.

Útflutningur frá Kína jókst um 5,5 prósent á milli ára, þrátt fyrir tolla Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, gegn Kína en margir hagfræðingar bjuggust við því að þeir myndu koma niður á útflutningi frá Kína.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal dróst útflutningur frá Kína til Bandaríkjanna saman um tuttugu prósent á milli ára en Kínverjar fundu nýja viðskiptavini annars staðar í heiminum sem endaði með áðurnefndum viðskiptaafgangi upp á 150 billjónir króna (150.000.000.000.000).

Útflutningur Kína til Suðaustur-Asíu jókst um þrettán prósent. Útflutningur til Evrópu jókst um 8,4 prósent og útflutningur til Suður-Ameríku jókst um 7,4. Langmest aukning var þó þegar snýr að Afríku en aukningin var heil 26 prósent.

Í frétt New York Times segir að útflutningur frá Kína til annarra heimssvæða hafi að miklu leyti endað í Bandaríkjunum. Innflytjendur þar hafi notað milliliði til að komast hjá tollum Trumps.

Þá hefur lækkun í virði gjaldmiðils Kína einnig gert útflutning auðveldari, þar sem vörur þaðan eru ódýrari og innflutningur dýrari.

Kínverjar selja sífellt fleiri rafmagnsbíla í heiminum.AP/Chinatopix

Sagðir treysta of mikið á útflutning

Innflutningur Kínverja stóð svo gott sem í stað á milli ára en ráðamenn þar hafa lagt mikla áherslu á að auka sjálfbærni í fjölmörgum geirum.

Greinendur hafa um nokkurt skeið haft áhyggjur af hagkerfi Kína og þá sérstaklega vegna þess hve mikið hann reiðir á útflutning. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur til að mynda varað við því og sagt að hagkerfið, sem er það annað stærsta í heiminum, sé of stórt til að treysta á útflutning.

Aðrir, bæði utan landamæra Kína og innan þeirra, hafa kallað eftir því að meiri áhersla verði lögð á neyslu. Framleiðsla og útflutningur hafa aukist til muna í ríkinu en fasteignakerfið og neysla heimila hefur dregist á eftir.

Fasteignahrun í Kína hefur á undanförnum árum þurrkað út sparnað margra og kaupmáttur margra kínverskra fjölskyldna hefur dregist saman hvort sem snýr að innfluttum vörum eða vörum framleiddum í Kína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×