Erlent

Leggur 10 prósenta toll á Norður­lönd, Breta, Frakka, Þjóð­verja og fleiri

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Donald Trump er allt annað en sáttur með tregar Evrópuþjóðir.
Donald Trump er allt annað en sáttur með tregar Evrópuþjóðir. AP/Alex Brandon

Donald Trump hyggst leggja tíu prósenta toll á allar vörur frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Bretlandi, Hollandi og Finnlandi frá og 1. febrúar vegna þess að fyrrnefnd lönd styðja ekki innlimun Bandaríkjanna á Grænlandi.

Í færslu sem Bandaríkjaforseti birti á samfélagsmiðli sínum í dag segir hann sömuleiðis að tollurinn muni hækka um 15 prósentustig og nema 25 prósentum 1. júní hafi Bandaríkjamenn ekki fengið yfirráð yfir Grænlandi. Ekkert bendir til þess í færslu Trump að Ísland verði fyrir barðinu á þessum tollum þrátt fyrir að tveir fulltrúar Landhelgisgæslunnar hafi verið sendir til Grænlands. Norðmenn sendu aðeins tvo fulltrúa síns hers.

Hann segir „heimsfriðinn í húfi“ og að Bandaríkjamenn hafi í 150 ár unnið að því að innlima Grænland en ekki haft erindi sem erfiði.

„Kína og Rússland vilja fá Grænland, og það er ekkert sem Danmörk getur gert í því,“ skrifar hann.

Fundurinn reyndist gagnslaus

Færsluna birtir forsetinn aðeins örfáum dögum eftir fund utanríkisráðherra Danmerkur og Grænlands með varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þrátt fyrir spennuþrungið andrúmsloft þótti fundurinn hafa gengið vel fyrir sig og dregið örlítið úr spennunni þjóðanna á milli.

Það kom þó fljótlega í ljós í kjölfarið að þó að Trump-liðar hafi sýnt örvott af virðingu á fundi ráðherrana láta þeir ekki sannleikann eða bandalög þvælast fyrir órökstuddum hótunum um innrásir og samningasvik. 

Strax daginn eftir fundinn lét fjölmiðlafulltrúi Trump-stjórnarinnar hafa það eftir sér að starfshópur sem fundurinn leiddi af sér hefði það að markmiði að ná samkomulagi um útfærslu á innlimun Bandaríkjanna á Grænlandi. Þessu svaraði Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra um hæl og hafnaði því algjörlega.

Í dag fóru svo fram fjölmenn mótmæli um alla Danmörku þar sem stjórnmála- og baráttumenn fluttu ræður og baulað var á bandaríska sendiráðið við Dags Hammarskjölds Allé. Grænlenskir miðlar greindu einnig frá því í dag að bandaríska ræðismannsskrifstofan í Nuuk hygðist flytja í nýtt húsnæði í miðborginni með brynvörðum gluggum.

Nauðsynlegt fyrir líf á plánetunni jörð

Trump hefur nú ákveðið að grípa aftur til tollanna.

„Við höfum niðurgreitt Danmörku, og öll lönd Evrópusambandsins, í mörg ár með því að rukka þau ekki um tolla eða nokkurs konar endurgreiðslu. Nú, öldum seinna, er kominn tími til að Danmörk gefi af sér. Heimsfriður er í húfi!“ segir Trump í upphafi langrar færslunnar.

Hann heldur áfram á svipuðum nótum og talar um að undir hans stjórn muni enginn „snerta þetta heilaga land,“ sérstaklega í ljósi þess að þjóðaröryggi Bandaríkjanna og alls heimsins sé undir það komið. Stóraukin hernaðarviðvera Evrópumanna á Grænlandi segir hann „öryggi og líf á plánetunni okkar.“

„Þessi lönd, sem leika þennan mjög hættulega leik, hafa skapað áhættu sem er hvorki ásættanleg né sjálfbær. Þess vegna er brýnt, til að vernda heimsfrið og öryggi, að gripið verði til öflugra aðgerða svo þetta hugsanlega hættulega ástand taki enda fljótt og án nokkurra spurninga,“ segir hann.

Tollurinn í gildi þar til samningar nást

Í ljósi þessa kveðst hann hafa ákveðið að leggja tíu prósenta toll á Danmörk, Noreg, Svíþjóð, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Holland og Finnland sem tekur gildi 1. febrúar. Þann 1. júní 2026 verði tollurinn svo hækkaður í 25 prósent. Tollurinn verði heimtaður þar til samkomulag næst um fullkomin og alger kaup á Grænlandi.

„Margir forsetar hafa reynt, og af góðri ástæðu, en Danmörk hefur alltaf neitað. Nú, vegna Gullhvelfingarinnar og nútíma vopnakerfa, bæði sóknar- og varnarvopna, er þörfin á að EIGNAST landið sérstaklega mikilvæg. Hundruðum milljarða dollara er nú varið í öryggisáætlanir sem tengjast „Hvelfingunni“, þar á meðal til hugsanlegrar verndar Kanada, og þetta snilldarlega en afar flókna kerfi getur aðeins virkað með hámarksgetu og skilvirkni, vegna horna, marka og landamæra, ef þetta landsvæði er innifalið í því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×