Innlent

Um tvö­falt fleiri ó­á­nægðir en á­nægðir með frestun gangna

Kjartan Kjartansson skrifar
Kjósendur Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra voru flestir skoðanalausir um ákvörðun hans um að slá Fjarðarheiðargöngum á frest. Rúmur helmingur sagðist hvorki óánægður né ánægður. Fleiri voru þó óánægðir en ánægðir.
Kjósendur Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra voru flestir skoðanalausir um ákvörðun hans um að slá Fjarðarheiðargöngum á frest. Rúmur helmingur sagðist hvorki óánægður né ánægður. Fleiri voru þó óánægðir en ánægðir. Vísir/Anton Brink

Tæplega fjörutíu prósent svarenda í skoðanakönnun segjast óánægð með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fresta Fjarðarheiðargöngum, um tvöfalt fleiri en eru ánægðir. Flestir hafa þó enga skoðun á frestuninni.

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra, ákvað að fresta Fjarðarheiðargöngum í samgönguáætlun í haust og setja í staðinn Fjarðagöng í forgang. Ákvörðunin mæltist afar illa fyrir hjá Seyðfirðingum sem vildu frekar tengingu við Egilsstaði en Norðfjörð.

Af þeim sem tóku afstöðu í skoðanakönnun Prósents um ákvörðunina sögðust 42 prósent hvorki ánægð né óánægð. Óánægð voru 39 prósent en nítján prósent sögðust ánægð.

Marktækt fleiri landsbyggðarbúar voru óánægðir með ákvörðunina en höfuðborgarbúar. Á landsbyggðinni sögðust 44 prósent óánægð en 36 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Um fimmtungur sagðist ánægður á báðum svæðum.

Þá var mikill munur á ánægju fólks með ákvörðunina eftir aldri. Aðeins fimm prósent í yngsta aldurshópnum, 18 ti 24 ára sögðust ánægð með að jarðgögnunum hefði verið frestað, en þriðjungur í elsta aldurshópnum, 65 ára og eldri.

Óánægðir með eigin ákvörðun

Fleiri voru óánægðir en ánægðir með ákvörðunina á meðal stuðningsmanna allra flokka á Alþingi, jafnvel ríkisstjórnarflokkanna sem tóku hana.

Mesta ánægjan reyndist á meðal kjósenda Samfylkingarinnar og Viðreisnar þar sem fjórðungur og rúmlega fimmtungur studdu ákvörðunina. Þriðjungur stuðningsmanna flokkanna sögðust þó óánægðir.

Hjá kjósendum Flokks fólksins, flokks Eyjólfs ráðherra, sagðist innan við fimmtungur ánægður en 28 prósent óánægður. Hlutfall þeirra sem sögðust hvorki óánægðir né ánægðir var langhæst hjá Flokki fólksins, 54 prósent.

Mesta óánægjan með frestunina var á meðal kjósenda Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins, 54 og 45 prósent.

Á meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins og flokka sem eiga ekki sæti á Alþingi sagðist fimmtungur ánægður með ákvörðun ríkisstjórnarinnar en rúm fjörutíu prósent óánægð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×