Skoðun

Hvað er hús­fé­lag?

Jónína Þórdís Karlsdóttir skrifar

Það er auðsjáanlegt að ýmsum málum í fjöleignarhúsi verða eigendur þess að ráða í félagi. Það er einmitt þess vegna sem kveðið er á um rétt og skyldu eiganda til að vera í húsfélagi í lögum um fjöleignarhús, en yfirlit yfir helstu réttindi og skyldur eiganda í fjöleignarhúsi er að finna í lögunum.

Þátttaka í húsfélagi

Þátttaka í húsfélagi er órjúfanlega tengd fasteignum hússins. Þannig geta aðeins eigendur hússins verið félagar í húsfélaginu. Þá er vert að geta þess að eigandi getur hvorki synjað þátttöku í húsfélagi né sagt sig úr því, nema með sölu á eignarhluta sínum. Húsfélag er því einfaldlega félag eigenda séreigna í fjöleignarhúsi en með einstökum séreignarhlutum fylgja eftir hlutfallstölum réttindi og skyldur til þess að taka þátt í umræddum félagsskap.

Húsfélög eru til í öllum húsum

Ekki þarf að stofna húsfélög sérstaklega í fjöleignarhúsum, enda eru þau til í öllum slíkum húsum í krafti ákvæða laganna. Þannig nægir að boða til húsfundar, þrátt fyrir að slíkir fundir hafi ekki verið haldnir um áraraðir, til þess að gera húsfélag virkt. Húsfélagið, sem slíkt, leggst m.ö.o. ekki niður í kjölfar aðgerðarleysis þess. Hins vegar þarf að sækja sérstaklega um kennitölu fyrir húsfélag, ef vilji eða þörf er á því að húsfélag hafi slíka, enda verður hún ekki sjálfkrafa til við byggingu fjöleignarhúss. Það getur t.d. verið nauðsynlegt að sækja um kennitölu ef húsfélag hefur í hyggju að ráðast í framkvæmdir eða þarf að greiða reikninga.

Tilgangur og hlutverk húsfélags

Tilgangur og hlutverk húsfélags er fyrst og fremst að sjá um endurbætur, viðhald, varðveislu og rekstur sameignar þannig að hún fái sem best þjónað sameiginlegum þörfum eigenda. Eins ber húsfélagi að sjá til þess að hagnýting hússins, bæði séreigna og sameignar, sé ávallt með eðlilegum hætti og þannig að verðgildi eigna haldist. Hægt er að framfylgja því með reglum, samþykktum og ákvörðunum. Valdsvið húsfélags er bundið við sameign hússins, þær ákvarðanir er varða hana og þörf er á vegna hennar sem og sameiginlegra hagsmuna eigenda.

Húsfundur

Æðsta vald í málefnum húsfélags er í höndum almenns fundar þess, húsfundar. Því er auðsýnt að húsfundir þjóna gríðarlega mikilvægu hlutverki innan fjöleignarhúsa. Húsfundur er mikilvægur grundvöllur fyrir samráð og samstarf eigenda fjöleignarhúsa enda eiga allir eigendur slíkra húsa óskoraðan rétt á því að taka þátt í þeim ákvörðunum sem varða sameignina, hvort sem um er að ræða sameign innan húss eða utan. Ef eigandi er ekki boðaður á fund með tryggilegum hætti, getur það leitt til þess að hann verður óbundinn af ákvörðun fundarins.

Höfundur er lögmaður hjá Húseigendafélaginu.




Skoðun

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×