Lífið

Sló í gegn sem barn en nú fyrsta konan á toppi listans frá alda­mótum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Annika Wedderkopp hóf leikferil sinn sem ung stúlka en er nú að rísa sem ein stærsta poppstjarna Danmerkur.
Annika Wedderkopp hóf leikferil sinn sem ung stúlka en er nú að rísa sem ein stærsta poppstjarna Danmerkur. Getty

Danska leik- og söngkonan Annika Wedderkopp er fyrsta konan síðan árið 1999 til að eiga vinsælustu plötu ársins á danska topplistanum. Hún átti jafnframt tólf af hundrað vinsælustu lögum ársins, en eftir að hafa fyrst slegið í gegn á hvíta tjaldinu sem barn er Annika nú á góðri leið með að verða ein stærsta poppstjarna Danmerkur.

Annika er fædd í desember 2004 en þegar hún var sjö ára fór hún með stórt hlutverk í dönsku verðlaunamyndinni Jagten þar sem hún lék á móti stórleikaranum Mads Mikkelsen. Þar fór Mikkelsen með hlutverk einmana leikskólakennara sem berst fyrir forræði yfir syni sínum um leið og hann glímir við afleiðingar þess að sæta ásökunum um alvarlegan glæp gegn barni.

Annika á rauða dreglinum í Cannes ásamt Mads Mikkelsen árið 2012. EPA/IAN LANGSDON

Fyrir aðeins örfáum árum síðan var Annika annars aðeins ósköp venjuleg menntaskólastúlka en eftir að hún sló í gegn með tónlist sinni á TikTok hefur hún risið hratt upp á stjörnuhimininn. Hún hefur síðan gefið út fjölda laga og smáskífa, meðal annars í samstarfi við aðra þekkta danska og norska listamenn. 

Platan AW sem kom út í fyrra er hins vegar fyrsta stóra plata söngkonunnar sem hefur heldur betur slegið í gegn.

Vinsælli en Swift og Eilish

DR greinir frá því í morgun að Annika sé fyrsti kvenkyns listamaðurinn til að eiga vinsælustu plötu ársins, en platan hennar AW toppaði plötulista ársins 2025 samkvæmt tölum dönsku tónlistarsamtakanna IFPI. Topplistinn sem um ræðir nær yfir mest seldu plötur ársins í Danmörku, óháð því hvort um danska eða erlenda listamenn sé að ræða. Þannig var plata Anniku vinsælli í Danmörku í fyrra en til dæmis plötur stórstjarna á borð við Taylor Swift og Billie Eilish.

Annika Wedderkopp er fyrsta konan í rúman aldarfjórðung til að eiga vinsælustu plötu ársins í Danmörku.Getty/Kristian Tuxen Ladegaard Berg

Í tilkynningu frá samtökunum segir að listi síðasta árs sé til marks um jafnari kynjahlutföll milli karl- og kvenkyns listamanna og þá sé danska tungumálið að sækja í sig veðrið. Annika syngur alla jafna á dönsku en lögin hennar hafa mörg náð gríðarlegum vinsældum í heimalandinu. Árið 2025 voru konur aðalistamennirnir á bak við 25 af 100 vinsælustu lögum ársins, og þótt hlutfall kvenna nemi aðeins um fjórðungi heildarlistans er þetta fjölgun um fimm á milli ára. Hlutfall kvenna hækkar þó upp í 50% séu talin með lög þar sem konur eru gestir eða samstarfslistamenn í laginu, sem er aukning um tæp 40% á milli ára.

Vinsælustu lög Anniku eru með hátt í þrjátíu milljón spilanir á Spotify en fyrsta lagið hennar, Knuser hjerter, kom út í mars 2024. Síðan hefur hún átt marga vinsæla smelli á borð við Nye tider, Så længe jeg er sexy og Stolt, sem er eitt vinsælasta lagið af plötunni AW sem hún flytur með danska rapparanum Lamin. Annika tróð upp á stóra sviðinu á Hróaskelduhátíðinni í sumar og virðist eiga framtíðina fyrir sér í bransanum.

Aðdáendur Anniku létu sig ekki vanta þegar hún tróð upp í Tivolí árið 2024.Getty/Kristian Tuxen Ladegaard Berg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.