Innlent

Jói Fel málar með puttunum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jói Fel listamaður, bakari og matreiðslumaður, sem heitir fullu nafni Jóhannes Felixson og er með málverkasýningu þessa dagana á veggjum Sundhallar Selfoss.
Jói Fel listamaður, bakari og matreiðslumaður, sem heitir fullu nafni Jóhannes Felixson og er með málverkasýningu þessa dagana á veggjum Sundhallar Selfoss. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Málverk eftir Jói Fel eins og hann er alltaf kallaður hafa vakið mikla athygli á veggjum Sundhallar Selfoss því þar eru til sýnis fjölmörg verk hans, til dæmis af þríeykinu í Covid og nokkrum heimsfrægum knattspyrnustjörnum. Margar af myndunum málar hann eingöngu með puttunum.

Sundhöll Selfoss er að verða vinsæll sýningarstaða fyrir listamenn að sýna verk sín en nú er það Jói Fel, sem er með nokkur verka sinna á veggjunum á ganginum þar sem gengið er í búningsklefana. Fjölmargir hafa mætt til að skoða sýninguna, sem opnaði 19. janúar og stendur til 19. febrúar.

„Svo er þetta eingöngu málað með puttunum, það kemur enginn pensill eða penni eða neitt nálægt þessu. Þannig að ég klessi litnum á og svo nudda ég með puttanum og dreg úr,” segir Jói þegar hann sýndi puttamyndirnar sínar.

Svo eru hefðbundnar myndir á sýningunni, sem hann málar með pensli eða penslum eins og af þríeykinu, þeim Ölmu, Víði og Þórólfi.

Svo er Jói líka búinn að mála þessar knattspyrnuhetjur.

Þekktar knattspyrnuhetjur, sem Jói hefur málað.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Og það er svolítið gaman að vera hérna í Sundhöllinni á Selfossi en ég segi World Class af því að ég mæti hérna á hverjum degi í World Class og það er svo gaman að hafa svona mikið af fólki, sem er að labba hérna ganginn, þannig að þetta er ekkert venjuleg málverkasýning, hérna koma þúsund manns á dag og skoða myndirnar mínar,” segir Jói kampakátur.

Þannig að þú ert ekki bara að elda og baka, þú málar líka?

„Já, já þetta er áhugamálið og ég geri þetta svona á kvöldin og helgar þegar ég er í smá fríi”.

Sýningin er opin á opnunartíma Sundhallar Selfoss og hefur notið mikilla vinsælda til þessa.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og Jói er að sjálfsögðu stoltur af myndunum sínum.

„Jú, ég er mjög stoltur af þessu og ég vona bara að hinir, sem koma á sýninguna séu stoltir og ánægðir með þetta,” segir Jói.

Og að lokum hnyklaði Jói aðeins vöðvana fyrir okkur enda engin skortur á þeim á líkama hans.

„Ég verð sextugur á næsta ári, ég er búinn að segja það, ég ætla að vera flottasti sextugasti karlmaðurinn á Íslandi, það er bara svoleiðis,” sagði Jói hlæjandi.

Jói, sem segist ætla að verða flottasti sextugasti karlmaðurinn á næsta ári þegar hann fagnar 60 ára afmæli sínu.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×