Skoðun

Setjum ekki skátastarf á vara­manna­bekkinn

Óskar Eiríksson skrifar

Um síðustu helgi lauk einum af skemmtilegustu viðbuðum sem skátar í Reykjavík taka þátt í á ári hverju: Vetrarmóti Reykjavíkurskáta á Úlfljótsvatni. Þar komu saman skátar á aldrinum 10–18 ára, settu upp tjöld í kuldanum, gistu þar – og höfðu gaman af. Í heimi þar sem samkeppni um athygli barna er sífellt meiri og skjátími eykst, er ómetanlegt að sjá yfir hundrað ungmenni velja útivist, áskoranir og samveru fram yfir hlýjuna heima. Það eitt og sér segir okkur mikið um styrk skátahreyfingarinnar. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að læra pelastikk og syngja ging-gang-gúllí-gúllí.

Skátahreyfingin hefur í yfir hundrað ár átt stóran sess í hjörtum Íslendinga og verið mikilvægur hluti af framboði tómstundastarfs í Reykjavík. Í skátastarfi fær hvert barn að vaxa á eigin forsendum, prófa sig áfram, bera ábyrgð og taka þátt í samfélagi þar sem samheldni er höfð að leiðarljósi. Þetta er starf sem á vel heima í flóru tómstunda og félagsstarfs í borginni – ekki síst fyrir börn sem finna sig ekki í hefðbundnum íþróttum, vilja kynnast nýjum krökkum, takast á við áskoranir eða einfaldlega stunda meiri útivist. Þar getur skátastarf gegnt lykilhlutverki í að efla leiðtogafærni, félagsfærni, styrkja sjálfsmynd barna og auðvelda inngildingu þeirra í íslensku samfélagi.

Í stöðu skátastarfs í Reykjavík felast hins vegar bæði tækifæri og áskoranir. Flest skátafélög í Reykjavík eru með biðlista þar sem þau geta ekki með góðu móti tekið við öllum börnum sem vilja taka þátt í starfinu. Á sama tíma sýna tölur að áhugi barna og foreldra á skátastarfi hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Það er ljóst að við getum fjölgað iðkendum, en til þess þarf hreyfingin meiri aðstoð og stuðning.

Skátasamband Reykjavíkur hefur ítrekað bent á að fjárveitingar borgarinnar til viðhalds og reksturs skátaheimila séu ekki í takt við raunverulegar þarfir. Skátaheimilin eru hjarta starfseminnar – þar fer fram félagsstarf á veturna með reglulegum fundum og fræðslu, og á sumrin eru þar haldin sumarnámskeið, Útilífsskólinn, sem opin eru öllum börnum á aldrinum 8-12 ára. Þegar fjármagn vantar í viðhald og uppbyggingu eru félögin sett í þá stöðu að þurfa að velja á milli þess að kaupa til dæmis nýja glugga til að tryggja að húsnæðið mæti kröfum, eða setja meiri kraft í grunnstarfið. Með öflugra grunnstarfi er hægt að taka á móti fleiri iðkendum ásamt því að gera dagskrá félaganna enn áhugaverðari fyrir börnin.

Þá eru einnig mikil tækifæri fólgin í því að setja á laggirnar skátastarf í fleiri hverfum borgarinnar. Í dag eru fjölmenn hverfi eins og Úlfarsárdalur og Grafarholt enn án starfandi skátafélags og í Breiðholti eru mörg sóknarfæri. Þarna eru fjölmenn barnahverfi og með réttum stuðningi væri hægt að bjóða hundruðum barna í þessum hverfum upp á skátastarf sem gæti orðið lykillinn að félagsþroska þeirra, vellíðan og virkri þátttöku í samfélaginu.

Að lokum vill Skátasamband Reykjavíkur leggja áherslu á að samtal skiptir máli. Nú þegar kosningabarátta flokkanna hefst í aðdraganda borgarstjórnakosninga verður gott að eiga uppbyggilegt samtal við allt það fólk sem býður fram krafta sína í þágu samfélagsins í borginni. Okkur er öllum annt um það að börnin okkar blómstri á sínum forsendum – og þar getur skátastarf lagt mikið af mörkum.

Við erum tilbúin í samtalið um það hvernig við getum sameiginlega tryggt að skátastarf verði áfram sterkur og aðgengilegur valkostur fyrir börnin í borginni.

Höfundur er formaður Skátasambands Reykjavíkur




Skoðun

Sjá meira


×