Skoðun

Að loka á for­eldri er ekki ein­faldasta leiðin

Sahara Rós Blandon skrifar

Að rjúfa samskipti við foreldri er ekki auðveldasta leiðin.

Það er ekki auðvelt að syrgja foreldra sem eru enn á lífi.

Það er ekki auðvelt að missa stöðu sína innan fjölskyldunnar.

Það er ekki auðvelt að vera dæmdur, misskilinn eða útskúfaður fyrir að reyna að vernda sig — og börnin sín.

Það er ekki auðvelt að lifa við sektarkennd, efasemdir og stöðugan ótta um að maður sé sjálfur vandamálið.

Og samt velja sumir þessa leið.

Uppkomin börn velja hana ekki af því hún er einföld, heldur vegna þess að það kostar enn meira að vera áfram í skaðlegum samskiptum.

Áður en fullorðið barn slítur samskiptum við foreldri sitt eru margar hugsanir sem fara í gegnum hugann:

Verður mér boðið í brúðkaup systur minnar?

Get ég mætt í jarðarför án þess að allt fari úr böndunum?

Missi ég sambandið við systkini mín og systkinabörn?

Verð ég kærð fyrir umgengnistálmun þótt foreldrar mínir eigi ekki tilkall til barnabarna sinna?

Hvað ef mig vantar aukinn stuðning þegar ég sjálf verð foreldri?

Hvað ef ég missi alla — ekki bara þau?

Hvað ef ég er bara að vera dramatísk?

Þetta eru ekki hugsanir einhvers sem velur einföldustu leiðina“.

Þetta eru hugsanir einhvers sem vegur og metur fórnarkostnaðinn — og tekur samt skrefið stóra, oft eftir að hafa eytt stórum hluta ævinnar í að reyna allar aðrar leiðir.

Að loka á foreldri er sjaldnast fyrsta val. Fyrir langflesta er það síðasta úrræðið — eina leiðin sem eftir er til að finna frið og lifa lífi án áframhaldandi skaða.

Það gleymist einnig oft að þessari ákvörðun fylgir mikill kostnaður — ekki aðeins tilfinningalegur heldur einnig fjárhagslegur. Að vinna úr áfallinu sem slík sambönd skilja eftir sig krefst gjarnan faglegrar aðstoðar.

Sálfræðimeðferð tekur tíma, er andlega krefjandi og kostar mikið. Margir þurfa að greiða úr eigin vasa til að laga skaða sem þeir ollu ekki sjálfir. Ef einhver keyrir á þig ber sá aðili ábyrgð á tjóninu. Þegar kemur að ofbeldi innan fjölskyldna er þessu öfugt farið.

Þessi veruleiki margra sem ég vil koma á framæri virðist ekki hafa verið tekinn með í reikninginn í nýlegri umfjöllun í kjölfar viðtals við Theodór Francis á Bylgjunni. Þar er að mínu mati dregin upp einföld og skökk mynd af því hvers vegna samskipti milli barna og foreldra rofna. Gefið er í skyn að uppkomin börn sem neyðast til að loka á foreldra sína séu aðeins að leita auðveldustu leiðarinnar. Að þau vilji hefna sín eða flýja vandamálin, og að sátt væri möguleg ef þau væru einfaldlega skilningsríkari og tilbúin að fyrirgefa.

Það kemur hins vegar hvergi fram í umræðunni að foreldrar hafi oft haft áratugi til að axla ábyrgð, biðjast einlægrar afsökunar eða leita sér aðstoðar — og hafnað því ítrekað, jafnvel eftir grátbeiðnir barna sinna. Mikilvægt er að nefna að ofbeldi er ekki „ágreiningur“ sem hægt er að „leysa“. Sá sem beitir ofbeldi verður að vera tilbúinn að vinna í sjálfum sér og bæta ráð sitt. En yfirleitt eru það einmitt þau sem verða fyrir ofbeldinu sem leita sér hjálpar.

Í flestum tilfellum slíta fullorðin börn ekki samskiptum af því þau vilja það. Þau gera það vegna þess að foreldrar þeirra sýna lítinn vilja til sjálfsskoðunar eða breytinga. Einlægar afsökunarbeiðnir eru sjaldgæfar. Í besta falli er boðið upp á það sem mætti kalla „ef-sökunarbeiðni“: „Fyrirgefðu ef ég gerði eitthvað sem særði þig“ eða „Mér þykir leitt að þér líði svona“.

Slíkar efsökunarbeiðnir gera lítið úr skaðanum sem barnið hefur orðið fyrir, réttlæta hann og varpa ábyrgðinni lúmskt aftur yfir á barnið. Oft kjósa slíkir foreldrar frekar að viðhalda fjarlægðinni en að horfast í augu við eigin hegðun. Þetta er því miður súr sannleikur margra uppkominna barna.

Að kalla útilokun „flótta“ gerir ráð fyrir að enn sé eitthvað uppbyggilegt að sækja í sambandinu. Fyrir marga er það einfaldlega ekki raunin. Samtöl fara í hringi. Mörk eru hunsuð eða börnunum refsað fyrir að setja þau. Engin ábyrgð er tekin. Fjarlægð verður þá eina leiðin til að öðlast frið, öryggi og stöðugleika.

Það sem einnig vantar í þessa umræðu er félagslegi kostnaðurinn sem fellur á herðar uppkominna barnanna. Barn sem slítur samskiptum missir oft ekki aðeins foreldri, heldur einnig stöðu sína í fjölskyldunni. Tengsl við systkini, ættingja og fólk sem hefur verið því nærri alla ævi geta rofnað. Þrýst er á fólk að „sættast“, sem þýðir í raun oft að sópa öllu undir teppið. Þeir sem setja mörk eru gerðir að vandamálinu. Allt þetta ferli hefur einangrandi áhrif á barnið.

Andstætt því sem haldið hefur verið fram um þetta viðkvæma málefni er útilokun ekki „smitandi“ innan vinahópa. Þetta er ekki tískubóla. Það er ekki öfundsvert við það að lifa í fjarlægð frá foreldrum sínum. Raunveruleiki þeirra sem gera það er mjög einmanalegur. Það er ekkert töff við það að missa fjölskyldu sína. Í kjölfar umræddra sambandsslita fylgir oft sorg, höfnun, áfallastreita og flókið sorgarferli. Ef önnur leið væri fær, myndu flestir velja hana.

Viljum við skilja þessi mál betur verðum við að hlusta á sögur þeirra sem hafa þurft að taka þessa erfiðu ákvörðun að slíta samskiptum. Oftast er athyglinni beint að foreldrum og álitsgjöfum, á meðan reynsla barnanna sem urðu fyrir skaða er dregin í efa eða hunsuð. Samt eru það einmitt þau sem eru raunverulegir sérfræðingar í þessum málum.

Samfélagið spyr sjaldnast: „Hvað kom fyrir þetta barn?“

Mun oftar er spurt: „Hvernig getur barn gert foreldrum sínum þetta?“

Hvers vegna spyr enginn:

„Hvað hefur foreldrið gert — eða neitað að gera — sem veldur því að barnið sér engan annan kost en að halda fjarlægð?“

Að lokum ber að nefna hve erfitt það er, eðli málsins samkvæmt, fyrir þá sem þetta varðar að stíga fram opinberlega með sína sögu. Að segja frá felur oft í sér hættu á frekari höfnun, vantrú eða áframhaldandi ofbeldi. Mörg uppkomin börn þegja í mörg ár af þessum sökum. Í mörgum tilfellum eru það einmitt foreldrarnir sem fyrst bera ágreininginn á torg, móta frásögnina sér í hag á kostnað barnanna og setja sig í hlutverk fórnarlambsins. Foreldrarnir gæta þess að börnin séu auðþekkjanleg í frásögninni. Það er því kaldhæðnislegt þegar krafist er að börn haldi þessum málum fyrir sig.

Foreldrar fá endalausan skilning:

„Þau gerðu sitt besta.“

„Þau eru bara mannleg, enginn er fullkominn.“

Fullorðin börn fá hins vegar ekki að njóta vafans. Miðað við þá mynd sem dregin er upp af þeim eru þau grimm, óstöðug eða hefnigjörn fyrir að velja fjarlægð sem úrræði til að vernda sig og börn sín.

Það er ekki fyrr en að fullorðið barn slítur samskiptum við foreldra sína að fólk fer að spá í hag litlu barnanna. Litlu barnabarnanna. En það gleymist að fullorðnu börnin voru einu sinni lítil börn sem enginn spáði í.

Að slíta samskiptum við foreldra er ekki auðveldasta leiðin.

Fyrir langflest börn er hún sú erfiðasta — en jafnframt sú eina sem færir þeim frið og gerir þeim kleift að skapa betra líf fyrir sig og börnin sín.

Ég sendi öllum sem vilja brjóta keðjuna, standa með sjálfum sér og taka afstöðu gegn ofbeldi hlýjar baráttukveðjur. Þetta er ekki einfalt.

Höfundur skrifar út frá eigin reynslu af þessu málefni.




Skoðun

Sjá meira


×