Innlent

„Liggur maður þarna á jörðinni og það var verið að berja hann í stöppu“

Eiður Þór Árnason skrifar
Anton Sveinn McKee, formaður Ungra Miðflokksmanna og fyrrum sundkappi.
Anton Sveinn McKee, formaður Ungra Miðflokksmanna og fyrrum sundkappi. Vísir/Einar

Anton Sveinn McKee, Íslandsmethafi í sundi og formaður Ungra Miðflokksmanna, steig inn í þegar ungmenni réðust á mann við strætóbiðskýli nærri Aktu taktu í Garðabæ seint í gær.

Málið er til rannsóknar hjá lögreglu sem stórfelld líkamsárás. Einn var handtekinn í gær en honum sleppt að lokinni yfirheyrslu. Brotaþoli sem er á fimmtugsaldri var fluttur á slysadeild en lítið er vitað um líðan mannsins. Lögregla hefur greint frá því að hann hafi hlotið stórfellt líkamstjón.

„Ég stíg inn á milli til að vernda fórnarlambið sem er að lenda í árásinni og gerði mitt til að koma í veg fyrir að árásin myndi halda áfram þangað til lögregla skarst í leikinn,“ segir Anton í samtali við fréttastofu. Hann hafi strax hringt á lögreglu og beðið með fórnarlambinu þar til laganna verðir komu að strætóskýlinu við Hafnafjarðarveg, fjarri Aktu taktu.

Anton segir að enginn hafi flúið vettvang og árásarmaður í raun gert sig líklegan til að láta höggin dynja á ný. Engum vopnum var beitt, að sögn lögreglu.

„Hann var með ögrandi tilburði og ætlaði að halda áfram. Ég náði að róa hann en maður var undirbúinn fyrir það að hann myndi ráðast á mig líka.“

Sá hafi á einum tímapunkti ætlað að stíga í áttina að kærustu Antons sem var með í för en hann gert sitt til að koma í veg fyrir það.

Umrætt strætóskýli nærri Ásgarði í Garðabæ þar sem starfræktur er veitingastaður undir merkjum Aktu taktu.Já.is

„Það voru engin frekari átök milli okkar. Ég gerði bara mitt til að vernda manninn,“ bætir Anton við. Fleiri ungmenni hafi verið viðstödd árásina en einn verið mest ögrandi eftir að hann kom á staðinn. Að sögn lögreglu voru fjögur til sex ungmenni á aldrinum sextán til sautján ára var á staðnum. Tvö þeirra hafi tekið þátt í árásinni.

„Verið að berja hann í stöppu“

Anton átti leið hjá árásinni um klukkan hálf tólf í gærkvöldi og kveðst hafa grunað að um einhvers konar slagsmál væri að ræða.

„Ég var bara að keyra framhjá og tók eftir því að það var hópur af unglingum og einhver lá á jörðinni en ég var ekki alveg viss hvað ætti sér stað. Þannig að ég ákvað að taka annan hring til þess að vera viss um að ég skildi hvað var í gangi þarna,“ segir Anton. Þegar hann kannaði málið nánar hafi verið augljóst hvað var á seyði.

„Það liggur maður þarna á jörðinni og það var verið að berja hann í stöppu. Manni náttúrulega bara stendur ekki á sama og hann var algjörlega, algjörlega varnarlaus á götunni og bara lá á miðri götu. Þannig ég ákvað að stöðva bílinn og gera mitt sem samfélagsþegn til að koma í veg fyrir að það yrði algjörlega gengið frá honum.“

Skilur ekki hvers vegna enginn annar steig inn í

Anton harmar að enginn hafi verið búinn að skerast fyrr í leikinn og nefnir að fjöldi ökumanna hafi átt leið hjá á þessum tíma.

„Ætli það sé ekki fyrst og fremst leiðinlegt að náungakærleikurinn sé bara algjörlega farinn úr íslensku samfélagi. Ég veit ekki hversu margir bílar keyrðu þarna fram hjá og ég þurfti að taka auka hring til þess að keyra þarna fram hjá og stoppa. Það er eitthvað skrítið í gangi í íslensku samfélagi ef náungakærleikurinn er kominn svona langt niður.“ 

Í lok dags snúist þetta um að standa vörð um samfélagið.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

„Koma einhverjir strákar og svo fer allt í háaloft“

Tvenn ungmenni réðust á karlmann á fimmtugsaldri við strætóbiðstöð við Hafnarfjarðarveg til móts við Aktu taktu skömmu fyrir miðnætti í gær. Málið er rannsakað sem stórfelld líkamsárás. Brotaþoli var fluttur á slysadeild en lítið er vitað um líðan mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×