Innlent

Bólar ekkert á ákærum í Baugsmáli

Enn bólar ekkert á ákærunum í Baugsmálinu en til stóð að þær yrðu birtar fyrir tveimur vikum. Ákærur á hendur Jóhannesi Jónssyni, börnum hans, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og Kristínu Jóhannesdóttur, Tryggva Jónssyni, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, Stefáni Hilmarssyni og Önnu Þórðardóttur endurskoðendum hafa enn ekki verið birtar og virðist sem lítil breyting verði þar á en fimmmenningunum var birt ákæra þann 1. júlí. Talsmenn hinna ákærðu hugðust gera þær opinberar fyrir tveimur vikum en málið verður þingfest þann 17. ágúst. Ekki náðist í Jón Ásgeir í dag né lögmann hans, Gest Jónsson, vegna málsins en Gestur sagði fyrir tveimur vikum að ákærur yrðu líklega birtar fljótlega; þeir þyrftu hins vegar svigrúm til að undirbúa sig vel áður en ákærur yrðu birtar svo hægt væri að svara spurningum fjölmiðla. Þrjú ár virðist því ekki hafa verið nógur tími. Það má því gera ráð fyrir að menn verði heldur betur vel undirbúnir þegar ákærur verða loksins birtar en ákæruliðir eru rúmlega fjörutíu talsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×