Skoðun

Aðgerðir en ekki orð

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Við sem erum komin á miðjan aldur og höfum vel bærileg laun gerum okkur ef til vill ekki næga grein fyrir aðstöðu margra sem ekki ná þeim lífsgæðum sem við hin þekkjum.

Margir ráðamenn, t.d. alþingismenn, hafa sýnilega ekki fullnægjandi áhyggjur af stöðu þessa fólks. Deilt er um á Alþingi og víðar hvort fátækt fólk sé til á Íslandi, hversu fátækt það sé, hver margir skuli teljast fátækir og hvernig skilgreina skuli fátækt. Þessa árangurslitlu umræð má rekja allt aftur til kreppuáranna.

Svo virðist sem einstök dæmi um halloka fólk hristi upp í deyfðinni sem í raun einkennir aðgerðir gegn fátækt á Íslandi. Jafnan dugar það ekki til breytinga. Mest af þessu á þó að vera hafið yfir deilur og ekki á að þurfa margar og viðamiklar rannsóknir til að raunveruleikinn verði ljós. Það á heldur ekki að þola neinum að gera lítið úr fátækt, reyna að dylja hana eða „útskýra burt“ með muldri um leti, almenn lífsgæði, ónóga hæfileika sumra, sjálfskipaða ógæfu eða með öðru viðlíka sem stundum heyrist frá fólki með völd. Samhjálp var ekki fundin upp vegna ólíkra hæfileika fólks heldur af því að flest okkar höfum jákvæðar og mennskar kenndir og viljum mannlega reisn; höfum kosið að lifa í samfélagi; viljum flest lágmarksjöfnuð.

Í raun þekkja flestir dæmi um fáránleg lífsskilyrði fólks í einu auðugasta ríki heims. Við vitum flest af öryrkjum sem þurfa að búa og lifa fyrir langt innan við 100.000 krónur á mánuði, gamalt fólk með strípuð ellilaun sem rétt duga fyrir vistunarkostnaði og brýnustu nauðsynjum, barnahjón sem verða að lifa af vel innan við 200.000 krónum á mánuði að öllu meðtöldu eða einstæða foreldra með undir eða rétt yfir 100.000 krónur. Flestir vita hver húsaleiga er í landinu, að það kostar um 70.000 kr. á mánuði að skulda 10 milljónir í húsnæðislánakerfinu, að samgöngur og sími meðalfjölskyldu kosta ekki undir einhverjum tugum þúsunda á mánuði og að sama fjölskylda þarfnast tugþúsunda króna mánaðarlega til matar. Og hvað er þá eftir að borga? Heilmargt með litlu sem engu.

Hvað er að? Mörg atriðanna eru öllum kunn. Laun ófaglærðra eru of lág. Hreyfing launafólks bitlítil. Vinnutími er of langur. Kynjajafnrétti slakt. Skattleysismörk of lág. Skattakerfið miskunnarlaust við láglaunafólk, öryrkja, þorra eftirlaunafólks og við ófáa sjúka. Tekjutenging bóta röng á köflum. Flestar grunnbætur allt of lágar. Úrræði vélræn en ekki nógu einstaklingsbundin. Þannig mætti lengi telja. Tekna til úrbóta má afla á marga vegu, einkum þó með því að forgangsraða öðru vísi en gert er enda ekki um gríðarmiklar krónutölur að ræða. Vissulega milljarða en ekki mjög marga.

Nú er tækifæri til að ganga á hólm við lágmarkslaun innan við 100.000 kr. eða fátækt 7% íslenskra barna eða ofsköttun meirihluta aldraðra eða lögverndaða fjárkúgun á borð við þá sem sker 391.000 af 400.000 viðbótarsparnaði bótaþega. Ég sting upp á því að allir flokkar sem bjóða fram til alþingissetu í vor leggi fram skýrar, málefnabundnar og einfaldar lausnir á því helsta sem stingur í augu í gósenlandinu með fátæktarstimpilinn, ella skili menn auðum seðli í kjörkassann.

Ég er tilbúinn til þess. Litlu breytir þótt einn flokkur leggi fram lausnir. Hér á landi eru samsteypustjórnir regla í stjórnmálunum. Þetta er áskorun.



Ég sting upp á því að allir flokkar sem bjóða fram til alþingissetu í vor leggi fram skýrar, málefnabundnar og einfaldar lausnir á því helsta sem stingur í augu í gósenlandinu með fátæktarstimpilinn.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×