Viðskipti erlent

Spáir mikilli lækkun á olíuverði

Adnan Shihab Eldin, fyrrum formaður OPEC, samtaka olíuútflutningsríkja, segir heimsmarkaðsverð á hráolíu geta farið allt niður í 40 bandaríkjadali á tunnu um mitt næsta ár. Litlar líkur eru hins vegar á að það verði sambærilegt við hráolíuverðið árið 2003.

Formaðurinn fyrrverandi sagði í samtali við frönsku fréttastofuna AFP í dag að vissulega sé erfitt að geta sér til um verð á hráolíu á næsta ári. Geti það sveiflast frá því að vera í 40 dölum til 60 dala. Þó geti svo farið að það verði ekki fyrr en í síðasta lagi árið 2008 sem það fari svo langt niður, að hans mati.

Shihab-Eldin setti þó þann fyrirvara á verðið að það muni einungis lækka mikið ef ekki komi til átaka líkt og þeirra sem verið hafa fyrir botni Miðjarðarhafs.

Hráolíuverð fór í 78,40 dali á tunnu um miðjan júlí við innrás Ísraelshers í Líbanon og er um sögulegt hámarksverð að ræða. Í kjölfar vopnahlés Ísralsmanna og liðsmanna Hizbollah-samtakanna um miðjan síðasta mánuð hefur það hríðlækkað og fór niður fyrir 60 dali á tunnu til skamms tíma í gær. Þetta er lægsta verð sem sést hefur í hálft ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×