Ástralski fjárfestingabankinn Macquarie og bandaríska fjárfestingafélagið Texas Pacific hafa gert yfirtökutilboð í flugfélagið Qantas, sem er eitt það stærsta í Ástralíu. Ekki liggur fyrir hversu hátt tilboðið er en talið er að það hljóði upp á allt að 10,3 milljarða ástralska dali eða 563,7 milljarða íslenskra króna.
Fregnir af hugsanlegu yfirtökutilboði urðu til þess að keyra gengi á hlutabréfum í flugfélaginu upp um 20 prósent. Það hefur hins vegar dalað talsvert síðan og nemur hækkunin einungis um 1,6 prósentum.
Macquarie hefur verið orðaður við nokkrar yfirtökur en gerði m.a. yfirtökutilboð í Kauphöll Lundúna í Bretlandi fyrr á þessu ári. Þá keypti bankinn meðal annars rekstur strætisvagnanna í Lundúnum af fyrri rekstraraðilum fyrr á árinu.