Menning

Með Biblíur í kassavís

Krossinn keypti fimm kassa af Biblíunni frá árinu 1982 og Gunnar hyggst beina því til safnaðarins að hann nái sér í þá útgáfu.
Krossinn keypti fimm kassa af Biblíunni frá árinu 1982 og Gunnar hyggst beina því til safnaðarins að hann nái sér í þá útgáfu.

Samkvæmt vef Mannlífs var Gunnar Þorsteinsson, oftast kenndur við Krossinn, sagður vera farinn að hamstra Biblíur en hann hefur ekki farið leynt með andúð sína á nýrri þýðingu bókarinnar sem væntanleg er á næstu misserum.

Þegar Fréttablaðið náði tali af Gunnari vildi hann ekki kannast við hömstrunina í fyrstu en viðurkenndi loks að söfnuðurinn hefði keypt fimm kassa af Biblíunni frá árinu 1982. Til þess að hann myndi ekki komast í þrot þegar ný Biblía kæmi út. „Og ég ætla að kynna fyrir söfnuðinum mínum að hann nái sér í þá útgáfu en ekki hina nýju,“ útskýrir hann.

Nýja Biblían er ekki enn komin í prentun en ráðgert er að hún komi út með haustinu. „Hún átti að vera komin út fyrir mörgum árum en þeir eru eitthvað smeykir við útgáfuna,“ útskýrir Gunnar sem er ekki einn um þessa skoðun því hann segir aðra forstöðumenn í hinum frjálsu kristilegu söfnuðum reita hár sitt og skegg yfir þessari þýðingu. „Hún er ekkert annað en árás á menningu okkar og bókmenntir og ekki síst kristindóminn,“ segir Gunnar.

„Það er ekki hægt að berja sínar sérkenningar inn í fólk með því að falsa orð Guðs. Menn lenda í fangelsi ef þeir falsa peninga eða skírteini, en að falsa vegvísi sálarinnar?“ segir Gunnar. „En sem betur fer vakir Hann yfir orði sínu og ég ætla að hjálpa honum með það,“ bætir hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×