Fótbolti

Rossi byrjar hjá Ítalíu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Rossi fagnar marki á Ólympíuleikunum.
Rossi fagnar marki á Ólympíuleikunum.

Sóknarmaðurinn Guiseppe Rossi mun fá tækifæri í byrjunarlið ítalska landsliðsins sem mætir Grikklandi á miðvikudagskvöld. Þetta verður hans fyrsti landsleikur í byrjunarliðinu en hann fékk að spila 20 mínútur gegn Búlgaríu.

Marcello Lippi, landsliðsþjálfari Ítalíu, segist hafa tröllatrú á Rossi sem hefur staðið sig vel með Villareal á Spáni á leiktíðinni.

„Hann hefur spilað í þremur sterkustu deildum Evrópu og er miklu þróaðri leikmaður en jafnaldrar hans," sagði Lippi á blaðamannafundi. Rossi er 21. árs en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann víða komið við og spilað með Manchester United, Newcastle, Parka og nú Villareal.

Rossi verður í sókn ítalska landsliðsins við hlið Luca Toni sem leikur með Bayern München. Lippi sýnir Toni traust þó hann hafi ekki skorað fyrir Ítalíu síðan í vináttulandsleik gegn Portúgal 6. febrúar.

„Hann hefur ekki misst markanefið hjá Bayern. Hann virðist alltaf skora þegar hann stígur út á völlinn í Þýskalandi. Við þurfum bara að sýna honum þolinmæði, þetta er leikmaður sem kann að skora," sagði Lippi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×